Skoðun

Barnabætur eða fátækrastyrkur?

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Barnabætur hér á landi eru nú nánast eins og styrkur til fátækra og mjög ólíkar barnabótum annars staðar á Norðurlöndum. Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar, samkvæmt nýrri fjármálaáætlun, er að barnabætur verði eingöngu stuðningur við tekjulægstu fjölskyldurnar.

Farið er eftir tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um endurskoðun barnabótakerfisins. Sjóðurinn ráðleggur ríkisstjórninni að einfalda kerfið og beina greiðslum til lágtekjuheimila með hærra skerðingarhlutfalli miðað við laun. Einnig leggur sjóðurinn til að einstæðir foreldrar fái ekki hærri greiðslur en sambýlisfólk. Þannig verði einungis greidd ein föst fjárhæð fyrir börn undir 18 ára aldri og aldrei með fleiri börnum en þremur. Þetta þekkist hvergi á Norðurlöndunum.

Furðu sætir að ríkisstjórnin leiti til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um útfærslu barnabóta þegar beinast liggur við að líta til hinna norrænu ríkjanna. Þar eru bæturnar almennt ekki tekjutengdar og eru fyrst og fremst hugsaðar til að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri.

Ótekjutengdar barnabætur draga einnig síður úr sjálfstæði og atvinnuþátttöku kvenna en tekjutengdar bætur. Ungar fjölskyldur annars staðar á Norðurlöndunum munar um stuðninginn sem barnabætur veita og jöfnunarhlutverk þeirra er mikilvægt.

Vinstristjórnin hækkaði barnabætur um leið og hún komst í færi til þess. Haustið 2012 unnum við í fjármálaráðuneytinu ný viðmið fyrir úthlutun barnabóta. Greiðslurnar hækkuðu og náðu lengra upp eftir tekjuskalanum en áður. Hugmyndin var að hækka barnabæturnar í skrefum í átt að ótekjutengdu kerfi hinna norrænu ríkjanna. Því samþykkti Alþingi 30 prósenta hækkun barnabóta í fjárlögum 2013.

Núverandi ríkisstjórn fer í þveröfuga átt og hefur á kjörtímabilinu hert á tekjutengingu. Jafnaðarmenn tækju ekki einu sinni til athugunar tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um barnabætur í líki fátækrastyrks. Barnabótakerfi líkt hinna norrænu ríkjanna er okkar fyrirmynd enda góð reynsla af þeim fyrir börnin og foreldra þeirra. Verði jafnaðarmenn í næstu ríkisstjórn munum við standa við bakið á barnafjölskyldum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×