Lífið

Sumardagurinn fyrsti var hinn raunverulegi nýársdagur

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Vísir/Getty
„Sumardagurinn fyrsti er hvergi til í heiminum nema hér hjá okkur en þetta er liður í okkar gamla tímatali. Sumardagurinn fyrsti var hinn raunverulegi nýársdagur, þess vegna höldum við hann hátíðlegan enn þann dag í dag. Þetta vitum við vegna þess að hér áður fyrr var alltaf talað um hversu margra vetra börnin væru og enn þann dag í dag tala bændur um hversu margra vetra húsdýrin séu. Sumardagurinn fyrsti var mesti hátíðardagur Íslendinga ásamt jólunum, en sumargjafir eru mun eldri en jólagjafir,“ segir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur.

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur skrifaði bókina Saga daganna – hátíðir og merkisdagar.
Sumardagurinn fyrsti þýðir ekki að sumarblíðan sé komin, en Íslendingar hafa verið haldnir þeim mikla misskilningi svo árum skiptir, heldur markar hann upphaf sumarmisseris.

„Sumardagurinn fyrsti er oft kallaður yngismeyjardagur og er fyrsti dagur hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Hann er alltaf fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl, eða á tímabilinu 19.-25. apríl. Sumardagurinn fyrsti var lengi messudagur eða til 1744,“ segir Árni.

Í íslenskri þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfaranótt sumardagsins fyrsta.

„Hvarvetna var fylgst með því hvort frost væri aðfaranótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysi sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns,“ segir Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×