Guðni Th. Jóhannesson, forseta Íslands, kallaði forystufólk allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi á sinn fund á Staðastað í gær og að fundunum loknum ákvað hann að veita Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata, stjórnarmyndunarumboð.
Sjá einnig: Píratar fá stjórnarmyndunarumboðið
Áður hafði enginn verið með umboðið eftir að Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssyni mistókst að mynda ríkisstjórn.
Þorgerður Katrín telur að það hafi verið óþarfi hjá forseta að veita umboðið aftur. Fólk sé að kynnast og þreifa hvert á öðru málefnalega séð. „Að láta einhvern fá umboð, ég held að það skipti ekki öllu máli. Ég held að það sé óþarfi núna fyrir þessa helgi. Það er ljóst að menn hafa verið að tala saman á síðustu dögum, síðustu vikum. Það er allt að þróast,“ sagði Þorgerður í þættinum Vikan á RÚV í gærkvöldi.

Það hefði skilað litlum árangri fram til þess að veita einhverjum umboðið, ekki síst vegna þess að ekki liggur ljóst fyrir hvaða stjórnarmynstur væru líklegust eftir kosningar.
Sjá einnig: Hyggst skila umboðinu náist ekki lending strax
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir stöðuna býsna flókna í samtali við Fréttablaðið í dag.
„Ég lagði til eftir að ég fundaði með forsetanum í gær að menn slöppuðu aðeins af og hugsuðu málin um helgina. Forsetinn hefur hins vegar ákveðið að gera þetta öðruvísi og ég virði ákvörðun hans,“ segir Benedikt.
Flokkarnir fimm funda formlega næsta mánudag og ræða möguleikann á því að þeir myndi starfhæfa ríkisstjórn.
Rætt verður við þau Birgittu Jónsdóttur, Sigurð Inga Jóhannsson, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Svavar Gestsson í Víglínunni í beinni útsendingu á Vísi klukkan 12:20.