Viðskipti innlent

Isavia tilnefnt til verðlauna á sviði flugleiðsögu

Atli ísleifsson skrifar
Starfsfólk Isavia.
Starfsfólk Isavia. Mynd/Isavia
Isavia hefur verið tilnefnt til IHS Jane‘s verðlaunanna fyrir tvö verkefni sem unnin voru á flugleiðsögusviði.

Í tilkynningu frá félaginu segir að um sé að ræða ADS-B væðingu í íslensku flugstjórnarmiðstöðinni og verkefni sem unnið var með írskum flugmálayfirvöldum við að setja upp VCCS Virtual Center, samtengt fjarskiptastjórnkerfi í Gufunesi og Ballygirren á Írlandi.

„Isavia er fyrsti flugleiðsöguaðilinn í Evrópu til að taka upp ADS-B aðskilnað og nú má segja að kominn sé hraðbraut á milli Evrópu og Norður-Ameríku innan íslenska flugstjórnarsvæðisins.

ADS-B tæknin byggir á GPS gögnum og gefur nákvæmari og örari upplýsingar um staðsetningu flugvéla en til að mynda radar. Með ADS-B væðingu er hægt að minnka aðskilnað á umferðarmesta hluta íslenska flugstjórnarsvæðisins úr 50-120 sjómílum niður í 10 sjómílur. Breytingin getur orðið til þess að minnka eldsneytisnotkun verulega í flugstjórnarsvæðinu með tilheyrandi minni útblæstri og sparnaði fyrir flugfélög.

Aukin samvinna við Íra um samtengt fjarskiptastjórnkerfi

Með aukinni samvinnu við írsk flugmálayfirvöld við rekstur flugfjarskiptastöðva hefur nú verið komið á fót í fyrsta sinn í heiminum samtengdu fjarskiptastjórnkerfi. Með þessu nýja samtengda kerfi er hægt að skipta umferð á milli flugfjarskiptastöðvanna tveggja í Gufunesi og Ballygirreen á Írlandi á álagstímum auk þess sem önnur stöðin getur algjörlega tekið yfir starfsemi hinnar ef til neyðartilvika kemur. Samstarfið er einstakt á heimsvísu,“ segir í tilkynningunni.

Verðlaunin verða afhent á World ATM flugleiðsöguráðstefnunni í Madrid 7. mars næstkomandi. Tilnefningar má sjá á vef CANSO, alþjóðlegra samtaka flugleiðsöguveitenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×