Erlent

Flótti fólks frá Aleppo stöðvaður í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Flutningur flóttamanna frá Aleppo í Sýrlandi var stöðvaður í dag eftir að stríðandi fylkingar kenndu hver annarri um að hafa stofnað til átaka. Tyrkir búa sig undir að taka við tugum þúsunda flóttamanna til viðbótar og hvetja til tafarlaus vopnahlés í Sýrlandi.

Rúmlega þrjúhundruð þúsund manns hafa fallið í átökunum í Sýrlandi. Brottflutningur fólks frá austurhluta Aleppoborgar sem var á valdi uppreisnarhópa hófst í vikunni en var stöðvaður í dag. Bæði stjórnarherinn og fulltrúar uppreisnarmanna saka hver aðra um bera ábyrgð á bardögum sem urðu til þess að bílalestum var í dag snúið til baka til Aleppo.

Að auki er stjórnarherinn sagður krefjast þess að flóttafólkið taki særða með sér frá borginni. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna telur að enn séu um 50 þúsund manns í austurhluta Aleppo.

Þeir sem komist hafa burt fagna hins vegar innilega eins og sést á þessum myndum sem flóttamennirnir tóku sjálfir.

“Ég er þögull hermaður sem hef lagt mig í hættu en ég mun aldrei gefast upp gagnvart  Assad. Ég set traust mitt á Guð og þakka honum fyrir að hafa hlíft okkur,” sagði einn þeirra sem komust engu að síður frá Aleppo í dag.

Íranir og Rússar hafa barist með stjórnarher Sýrlands og útvegað honum vopn. Til mótmæla kom í Tyrklandi í dag vegna þess að för flóttafólksins hafði verið stöðvuð og tyrkneski utanríkisráðherrann kallaði í dag eftir tafarlausu vopnahléi í Sýrlandi.

Mevlut Cavusoglu forsætisráðherra Tyrklands segist bæði hafa verið í sambandi við Írana og Rússa til að reyna að koma á friði. Á sama tíma búa stjórnvöld í Tyrklandi sig undir að taka á móti tugþúsundum flóttamanna til viðbótar og vinna nú við að setja upp flóttamannabúðir nálægt landamærunum að Sýrlandi.

“Auk friðarviðræðnanna í Genf höfum við áætlanir um að koma fulltrúum uppreisnaraflanna og sýrlenskra stjórnvalda saman. En þá erum við að tala um hina raunverulegu uppreisnarhópa. Það ætti enginn að reyna að breyta samsetningu sýrlensku stjórnarandstöðunnar. Markmið okkar er að ná fram vopnahléi,” sagði  Cavusoglu á fréttamannafundi í dag.

Forsætisráðherrann ítrekaði að Tyrkir ættu ekki í neinum illindum við Írani og Rússa.

„Hins vegar kemur ekki til greina að okkar hálfu að eiga í beinum viðræðum við sýrlensk stjórnvöld. Um hvað ættum við að tala við Assad Sýrlandsforseta sem hefur myrt 600 þúsund manns? En það væri gott að ef fulltrúar stjórnvalda í Sýrlandi ræddu við fulltrúa andstöðunnar í landinu um framtíð Sýrlands, ef við leitum pólitískra lausna,“ segir forsætisráðherra Tyrklands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×