Donald Trump, forsetaefni bandaríska Repúblikanaflokksins, segist fagna því að Rússar brjótist inn í tölvur demókrata. Þeir megi gjarnan komast í tölvupósta Hillary Clinton og birta þá.
„Ég held að ykkur yrði ákaft fagnað af fjölmiðlum okkar,“ sagði hann á blaðamannafundi í gær.
Jake Sullivan, utanríkismálaráðgjafi Clinton, segir að nú sé framboð Trumps hætt að vera bara pólitískt og furðulegt. Nú sé það orðið að þjóðaröryggismáli: „Þetta er örugglega í fyrsta skipti sem forsetaframbjóðandi hefur beinlínis hvatt erlent ríki til að njósna um pólitískan andstæðing sinn.“
Robby Mook, kosningastjóri Clinton, hélt því fram í sjónvarpsviðtali á sunnudag að þúsundir tölvupósta úr tölvum demókrataflokksins, sem birtir voru á uppljóstrunarsíðunni Wikileaks, hefðu borist þangað frá Rússum sem hefðu brotist inn í tölvur flokksins.
Rússar hafi með þessu viljað hjálpa Trump í kosningabaráttunni gegn Clinton: „Ég tel það ekki vera neina tilviljun að þessir tölvupóstar hafi verið birtir rétt áður en landsþing okkar hefst, og það er uggvænlegt.“
Á Twitter-síðu Wikileaks segir að það sé rógburður einn, að verið sé að ganga erinda Rússa: „Úr kosningabúðum Clinton berst lélegur samsærisáburður um að við séum rússneskir njósnarar. Síðast áttum við að vera frá Mossad. Náið þessu nú rétt.“
Wikileaks hefur einnig birt tugþúsundir tölvupósta frá Hillary Clinton.
Bandaríska alríkislögreglan kynnti nýverið niðurstöður ítarlegrar rannsóknar sinnar á tölvupóstnotkun Clinton meðan hún var utanríkisráðherra, og komst að því að hún hefði sýnt vítavert kæruleysi með því að vista viðkvæm tölvupóstsamskipti sín á sinni eigin tölvu í stað þess að nota tölvubúnað ráðuneytisins, sem væri öruggari.
Trump hvetur Rússa til að leka tölvupóstum Hillary Clinton
Guðsteinn Bjarnason skrifar

Mest lesið

Barn á öðru aldursári lést
Innlent





Bíll valt og endaði á hvolfi
Innlent




Þrjú banaslys á fjórum dögum
Innlent