Handbolti

Janus Daði: Viljum bæta fyrir bikarklúðrið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úrslitakeppnin í Olísdeild karla hefst í kvöld þegar fyrstu fjórir leikirnir í 8-liða úrslitum karla hefjast.

„Þetta er ný keppni og við höfum séð á undanförnum árum að það er ekkert gefið í þessu,“ sagði Janus Daði Smárason, leikmaður Hauka, en Haukar urðu deildarmeistarar í vetur og mæta Akureyri í 8-liða úrslitunum.

„Við erum ánægðir með veturinn hingað til. Við misstum bikarinn í ákveðið klúður en við getum bætt nú upp fyrir það og vonandi klárað þessa úrslitakeppni með stæl.“

Hann segist ekki eiga von á því að Haukar endurtaki leikinn frá því í fyrra og vinni alla leiki sína í úrslitakeppninni.

„Það er auðvitað draumurinn en ég tel að það sé ekki raunhæft. Við byrjum bara á því að spila við Akureyri og svo sjáum við til.“

Hann segir lykilatriði að spila agaðan og góðan varnarleik. „Þegar við höfum náð því þá hefur okkur gengið ágætlega. Þá koma hraðaupphlaupin með. Þetta er lykilatriði fyrir okkur.“

Haukar og Valur voru með talsverða yfirburði í deildarkeppninni í vetur en Janus reiknar engu að síður með einhverjum óvæntum úrslitum.

„Ég held að allir eigi eftir að vinna leiki. Það var lítið á milli liðanna frá þriðja í áttunda sæti og ég er því spenntur að sjá hvað gerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×