Innlent

14 tonna ofurtölva hjá Veðurstofu Íslands

Svavar Hávarðsson skrifar
Flutningur á gögnum af tölvu DMI í Kaupmannahöfn til Íslands er lokið - eldri ofurtölvu var tekin úr rekstri í byrjun mars. Tölvurnar eru í raun tvær Thor og Freyja og kostuðu rúman milljarð sem 100% er greitt af DMI.
Flutningur á gögnum af tölvu DMI í Kaupmannahöfn til Íslands er lokið - eldri ofurtölvu var tekin úr rekstri í byrjun mars. Tölvurnar eru í raun tvær Thor og Freyja og kostuðu rúman milljarð sem 100% er greitt af DMI. Mynd/Veðurstofa Íslands
Ofurtölva dönsku veðurstofunnar (DMI) í húsnæði Veðurstofu Íslands er komin í fullan rekstur. Um er að ræða langöflugustu tölvu sem sett hefur verið upp hérlendis og mun hún geta framkvæmt 700.000 milljarða reikniaðgerða á sekúndu fulluppfærð - sem samsvarar getu 25.000 meðal fartölva. Tölvan vegur um 14 tonn.

Á ársfundi Veðurstofunnar í gær var tilurð þessa verkefnis rakin. Kom fram að forsvarsmenn DMI leituðu til Veðurstofunnar haustið 2013 til að kanna möguleika á samvinnu við rekstur ofurtölvu stofnunarinnar. Hlutirnir gengu hratt fyrir sig; samningur var undirritaður í nóvember 2014, tölvan kom til landsins ári seinna og var prufukeyrslum lokið í lok febrúar.

Tölvan er í eigu DMI en afurðir hennar nýttar af veðurstofunum báðum. Hún er í raun tvær tölvur sem kostuðu fulluppsettar rúman milljarð íslenskra króna og kostaðar að fullu af DMI.

En af hverju að staðsetja ofurtölvu DMI á Íslandi? Það helgast af því að veðurfar á Íslandi hentar afar vel fyrir rekstur gagnavera, og til dæmis fer hiti í Reykjavík aðeins yfir 20 stig í sex klukkustundir á ári að meðaltali. Frost undir tíu stigum er einnig sjaldgæft sem leiðir til þess að það þarf minni orku hér en á flestum öðrum stöðum í heiminum til þess að kæla tölvuna.

DMI þarf svo aftur að endurnýja þennan búnað á fimm til sjö ára fresti, en öflugri tölva þýðir meiri orkuþörf og kvaðir sem opinberar stofnanir í Danmörku starfa undir leyfa ekki rekstur þessarar tölvu þar í landi – hún einfaldlega sprengir loftslagsviðmiðin sem þar eru í gildi vegna stærðarinnar.

Ávinningur DMI er að nýta umhverfisvæna orkugjafa Íslands en Veðurstofu Íslands gefst á móti tækifæri til að stækka reiknisvæðið í kringum Ísland og bæta þjónustu sína á öllum sviðum; í veðurspám, hafísspám, reikningum á fortíðarloftslagi og framtíðarsviðsmyndum mögulegra loftslagsbreytinga. Einnig gefast betri tækifæri til styrkumsókna, bæði úr norrænum og evrópskum rannsókna- og þróunarsjóðum.

Sameiginlega munu DMI og Veðurstofan geta beitt sér enn betur að samstarfi hvað varðar loftslagsmál á norðurslóðum. Möguleikar Veðurstofunnar í veðurþjónustu aukast mikið, bæði almennt og hvað varðar aðila sem eiga mikið undir góðum upplýsingum. Enn fremur verður hægt að efla þjónustu við alþjóðaflug.

Flestar veðurstofur í Evrópu reka sínar eigin ofurtölvur til þess að reikna veðurspár. Þróun ofurtölva er hröð og kröfur til veðurstofa um nákvæmari veðurspár kalla á hraðari uppfærslur á ofurtölvunum en áður. Á sama tíma er þrengt að fjárhag veðurstofa.

Norska og sænska veðurstofan starfa saman að rekstri ofurtölvu, en nú er stefnt að samnorrænni gagnahýsingu og rekstri ofurtölvu til að reikna veðurspár fyrir öll Norðurlöndin frá árinu 2020. Vinna er hafin við að meta hvað tölva þarf að hafa mikla reiknigetu til þess að geta sinnt öllu þessu svæði sem nær yfir öll Norðurlöndin og Ísland og Grænland þar með talin. Til greina kemur að Eystrasaltsríkin verði líka með í því samstarfi.

Batteríin vega 8,4 tonn

l Cray XC30 ofurtölvan getur framkvæmt 700.000.000.000.000 reikniaðgerðir á sekúndu.

l Tölvan er 14 tonn.

l Tölvan er 20 sinnum stærri en allt tölvukerfi Veðurstofunnar sem er mikið umfangs.

l Rafhlöður í varaaflstöð tölvunnar vega 8,4 tonn.

l Dísil-varaaflstöð tölvunnar getur framleitt tæplega hálft megavatt.

l Reiknigeta DMI þrefaldast frá fyrri ofurtölvu.

l Tölvan notar rúmlega 10 sinnum meira rafmagn ein og sér en öll starfsemi Veðurstofunnar við Bústaðaveg – eða 400 kW.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×