Lífið

Bjóst við að kjóllinn færi í búningasafnið

Vera Einarsdóttir skrifar
Hafdís Helga fann brúðarkjólinn á eBay.
Hafdís Helga fann brúðarkjólinn á eBay.
Leikkonan Hafdís Helga Helgadóttir og Guðmundur Rúnar Ingvarsson gengu að eiga hvort annað í Garðakirkju 11. ágúst 2012. Brúðkaupið var sveipað fortíðarljóma og voru það ekki síst föt brúðhjónanna sem gerðu það að verkum.

„Ég var ekki með neina hugmynd um hvernig kjól ég vildi þegar ég byrjaði að líta í kringum mig. Ég þræddi nokkrar brúðarkjólaleigur hér heima en fann ekkert sem féll að mínum smekk. Ég fór því að skoða mig um á netinu og datt niður á ameríska vintage-verslun á eBay sem selur ónotaða kjóla af gömlum lagerum. Ég ákvað að panta þann sem mér leist best á en datt ekki í hug að hann myndi passa. Á þeim tíma þekkti ég engan sem hafði keypt brúðarkjól á netinu og bjóst í besta falli við að hann færi í búningasafnið. Kjóllinn var hins vegar ódýr þannig að ég ákvað að slá til.“

Hafdís var ekki lítið ánægð þegar í ljós kom að kjóllinn smellpassaði. „Móðir mín, sem er mjög handlagin, minnkaði aðeins púffið á ermunum og bætti á hann borða. Annað þurfti ekki að gera.“

Kjólföt Guðmundar eru frá upphafi síðustu aldar. MYNDIR/DAGBJÖRT EILÍF
Rétti borðinn var reyndar vandfundinn. „Ég var búin að bíta það í mig að vera með dökkan flauelsborða í mittinu en komst að því að flauelsborðar eru vandfundnir hér heima.“ Hafdís brá því á það ráð að panta borða af franskri antikverslun á netinu. „Ég var sífellt á pósthúsinu að sækja nýja og nýja sendingu af borðum en enginn þeirra hentaði. Það endaði með því að vinkona móður minnar fann espressobrúnan borða í New York sem smellpassaði.“

Kjóllin fór vel við kjólföt Guðmundar sem eru frá upphafi síðustu aldar. „Guðmundur vann í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar fyrir nokkrum árum og eignaðist á þeim tíma jakka sem hann notaði aldrei. Hann er frá 1920 og merktur fyrri eiganda sínum. Hann ákvað að láta laga hann fyrir brúðkaupið svo hann passaði betur. Buxurnar, sem eru frá 1930 og líka merktar fyrri eiganda, voru svo í einkaláni frá Gumma Jör,“ upplýsir Hafdís.

Dagurinn var að sögn Hafdísar æðislegur frá upphafi til enda. Veislan var haldin í Garðaholti þar sem sveitastemningin ræður ríkjum. „Við fengum reyndar alveg hræðilegt veður, sem var auðvitað ekki planið, en í hreinskilni sagt bætti það bara á sjarmann.“

Hafdís Helga fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Fyrir framan annað fólk sem er sýnd í kvikmyndahúsum um þessar mundir, en þetta er hennar fyrsta aðalhlutverk í bíómynd í fullri lengd. Myndin, sem er rómantísk, hugljúf og kómísk, hefur fengið afar góða dóma og er Hafdís að vonum ánægð. „Ég hef ekki heyrt neitt nema gott sem er auðvitað voða gaman.“ 

Greinin birtist í Brúðkaupsblaði Fréttablaðsins

Dagurinn var að sögn Hafdísar æðislegur frá upphafi til enda.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×