Formúla 1

Mikið gekk á í Ástralíukappakstrinum í Formúlu eitt um helgina | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrsti Formúlu eitt kappaksturinn fór fram í Ástralíu í gær og það er óhætt að segja að keppnistímabilið hafi farið af stað með miklum látum.

Heimsmeistarinn Lewis Hamilton var ráspól en það var liðsfélagi hans hjá Mercedes, Nico Rosberg, sem fagnaði sigri. Hamilton varð að sætta sig við annað sætið.

Nico Rosberg var þarna að vinna sinn fjórða Formúlu eitt kappakstur í röð en Þjóðverjinn vann einnig síðustu þrjár keppnirnar á síðasta tímabili.

Mercedes hélt einnig uppteknum hætti með því að eiga menn í tveimur efstu sætunum því það var einnig raunin í fjórum síðustu keppnum ársins 2015.

Kappaksturinn í Ástalíu var hin besta skemmtun og viðburðarríkur enda lenti fyrrum heimsmeistarinn Fernando Alonso meðal annars í kröppum dansi og það var í raun hálfgert kraftaverk að hann skyldi sleppa ómeiddur úr svakalegum árekstri.

Rúnar Jónsson og Kristján Einar Kristjánsson fóru yfir Ástralíukappaksturinn og það má sjá allt það helsta sem gerðist í keppninni í Samantektarþætti þeirra í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Nico Rosberg vann í Ástralíu

Nico Rosberg kom fyrstur í mark í fyrstu Formúlu 1 keppni ársins. Liðsfélagi hans hjá Mercedes, ríkjandi heimsmeistari Lewis Hamilton varð annar og Sebastian Vettel á Ferrari varð þriðji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×