Viðskipti innlent

Hættur við samstarf við Hollendinginn en hefur enn trú á einkasjúkrahúsi á Íslandi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Gunnar Ármannsson, annar íslensku fjárfestanna, hefur enn tröllatrú á að einkasjúkrahús eigi erindi við íslensku þjóðina.
Gunnar Ármannsson, annar íslensku fjárfestanna, hefur enn tröllatrú á að einkasjúkrahús eigi erindi við íslensku þjóðina. Vísir/Samsett
Íslenskir fjárfestar hafa dregið sig úr áformum um að stofna einkarekið sjúkrahús í Mosfellsbæ. Gunnar Ármannsson, annar fjárfestanna, segist þó ekki efast um að einkasjúkrahús geti risið á Íslandi, og telur það jafnvel geta hjálpað íslensku heilbrigðiskerfi. 

Áform MCPB ehf. um að reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ hafa vakið mikið umtal og ekki hafa allir verið á sama máli um það. RÚV greindi frá því í hádegisfréttum að Gunnar Ármannsson og Unnar Steinn Hjaltason hafi dregið sig úr samstarfinu við Henri Middeldorp. Í samtali við Vísi segir Gunnar að ástæður þess að þeir ákváðu að draga sig til hlés séu einfaldar.

„Þegar þessi umræða fór af stað þá varð hún fljótt neikvæð út í fjárfestana sem væru á bak við verkefnið. Þá þótti okkur eðlilegt að upplýsa bara strax um hverjir þetta væru. Það stóð hvort sem er til að það yrði gert þegar sótt yrði um ívilnanir fyrir verkefninu. Okkur fannst ástæðulaust að vera að búa til einhverja óþarfa tortryggni sem ekki þyrfti að vera. Þannig að við vildum að það yrði upplýst hverjir væru á bak við þetta.“

Gunnar segir að ekki hafi verið samkomulag um það. „Henri vildi bíða með þetta þar til það yrði sótt um þessar ívilnanir og okkur fannst það bara ekki rétt nálgun á verkefninu þannig að okkur fannst þá einfaldast að við myndum draga okkur til hlés og það gerðum við.“

Ekki einungis einkasjúkrahús sem geti ógnað heilbrigðiskerfinu

Gunnar segir að hann og Unnar hafi ekki verið ekki búnir að skuldbinda sig verkefninu, þeir hafi hvo átt 1% í MCRB ehf. og hafi afsalað sér því. „Við sjáum það bara á umræðunni að þetta er eldfimt mál og við töluðum um það frá upphafi að þetta yrði ekki unnið öðruvísi en í sátt og samlyndi við íslensk stjórnvöld,“ segir Gunnar.

„Ég er þeirrar skoðunar að það geri það ekki heldur þvert á móti held ég að þetta geti verið eitt af því sem geti mögulega hjálpað íslensku heilbrigðiskerfi, og ég er búinn að vera þeirrar skoðunar mjög lengi,“ segir Gunnar.

„Það er talað um að svona verkefni muni taka íslenskt starfsfólk frá íslenska heilbrigðiskerfinu. Þá má spyrja á móti, hvað með aðrar greinar sem hafa verið að soga til sín starfsfólk úr íslenska heilbrigðiskerfinu, eins og til dæmis flugreksturinn? Er það þá ekki ógn við íslenska heilbrigðiskerfið? Það væri forvitnilegt að vita hversu margir hjúkrunarfræðingar til dæmis eru að vinna núna sem flugfreyjur. Það er fjöldinn allur af heilbrigðisstarfsmönnum sem hefur farið í önnur störf af því að þau eru betur launuð.“

Ósammála Kára Stefánssyni um heilbrigðistúrisma

Þrátt fyrir að hafa dregið sig í hlé úr samstarfi við Middeldorp segist Gunnar ekki vera í vafa um að staður fyrir einkarekstur í íslensku heilbrigðiskerfi, og að Maltverjar séu áhugavert dæmi um slíkt.

„Það er 450 þúsund manna þjóð og þeir hafa tekið ákvörðun um það að þeir ætli sem þjóð að reyna að byggja meira á heilbrigðistúrisma til að styrkja sitt eigið heilbrigðiskerfi. Þeir ætla sér að fá heilsutúrista frá öðrum ríkjum Evrópu til sín vegna þess að með því auka þeir möguleika síns starfsfólks á störfum og halda betur í það, þannig að þeir eru meðvitað að fara út á þessa braut.“

Aðspurður segist Gunnar því vera ósammála Kára Stefánssyni um að heilbrigðistúrismi gangi ekki upp nema í undantekningartilvikum. „Það sem er í þessu er það að flest svona verkefni sem hafa farið af stað byggja að einhverju leyti á heimamarkaði og ég held að það sé það sem hann er að vísa til. Þetta verkefni hins vegar átti ekki að byggja á heimamarkaði en það var öðruvísi að því leytinu til að þarna vorum við með þekktan evrópskan lækni sem er með starfsemi annars staðar í Evrópu og hann ætlaði sjálfur, eða ætlar, að ávísa sjúklingum inn á þennan spítala,“ segir Gunnar.

„Við erum á sumum sviðum í heilbrigðisþjónustunni á pari við það besta í Evrópu og sums staðar í fararbroddi. Þannig að mér finnst að við ættum frekar að nýta þau tækifæri og horfa til þess hvort við getum fengið sjúklega frá Evrópu inn í það kerfi. Og ef við værum komið með einkarekinn spítala á einhverju sviði þá væri það strax búið að brjóta ísinn og gæti þá auðveldað hinu opinbera að laða til sín sjúklinga og auðvelda því a halda sínu starfsfólki. Hugsanlega fá þá meiri skatttekjur frá þessari einkareknu lausn, það eru margir vinklar á þessu.“


Tengdar fréttir

Félög Middeldorps ekki með starfsleyfi í Hollandi

Félög sem sögð eru eiga að fjármagna nýtt sjúkrahús í Mosfellsbæ eru ekki með starfsleyfi til að sinna eignastýringu í Hollandi. Þau eiga þó að vera með minnst um 50 milljarða í eignastýringu.

Segir heilbrigðiskerfið sjálft grafa undan sér

Stjórnarformaður félags sem hyggst reisa einkaspítala í Mosfellsbæ segir ekkert heilbrigðiskerfi hér á landi til að rústa líkt og Kári Stefánsson hélt fram að spítalinn myndi gera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×