Lífið

Ótrúlegustu gersemar á Flóamarkaðinum mikla

Brynhildur Björnsdóttir skrifar
Elvar Sigurgeirsson flóamarkaðsstjóri lofar fjölbreyttum varningi á flóaamarkaðinum mikla.
Elvar Sigurgeirsson flóamarkaðsstjóri lofar fjölbreyttum varningi á flóaamarkaðinum mikla. MYNDIR/ERNIR
Elvar Sigurgeirsson ljósmyndari stendur fyrir Flóamarkaðinum mikla í skátaheimili Ægisbúa í íþróttahúsi Hagaskóla þar sem verður meðal annars hægt að fjárfesta í frumgerð af fótanuddtæki, fullbúnu Pókemonspilasafni af gamla skólanum og linguaphone sem gefinn var út í Sovétríkjunum fyrrverandi. Ef einhver kaupir nógu margar bækur fylgir hillan með.

Elvar stundar nám í ljósmyndun við Arts University í Bourne­mouth í Englandi og útskrifaðist úr BA-námi í sumar. Á útskriftardaginn tók lífið óvænta stefnu. „Móðir mín varð bráðkvödd á heimili mínu í Bretlandi í byrjun júlí. Hún kom til að vera við útskriftina, var veik daginn eftir og var svo dáin tveimur dögum seinna. Þetta er auð­vitað mikið áfall og þar sem pabbi dó af slysförum þegar ég var fimmtán ára þá er ég orðinn munaðarlaus fyrir þrítugt,“ segir Elvar. „Þegar ég kom svo heim til að ganga frá dótinu hennar mömmu þá reyndust þetta vera hátt í hundrað kassar því hún hafði ekki komið því í verk að ganga frá dánarbúi ömmu sem lést fyrir sex árum. Þetta er þess vegna mjög mikið af ýmsu dóti sem ég er að reyna að koma frá mér og selja sem fjáröflun fyrir námið mitt því ég er að fara aftur út í MA-nám í ljósmyndun í haust.“

Með óvenjulegri gripum á flóamarkaðinum er þessi forláta linguaphone eða tungumálakennslupakki sem samanstendur af vínyl­plötu og kennslubókum í handhægri tösku.
Elvar hefur starfað með skátunum í meira en áratug og fékk lánað skátaheimili Ægisbúa undir flóamarkaðinn. „Ég verð þarna um helgina milli tólf og sex báða dagana. Verðlagið verður mjög sanngjarnt, hundrað krónur, fimm hundruð krónur og þúsundkall. Að sumu leyti er það hluti af sorgarferlinu að losa mig við dótið og vona að það finni nýja eigendur og verði notað, en svo eru öll frjáls framlög vel þegin til að styrkja mig í námi. Allt sem er ekki fest við veggina er til sölu og ef einhver kaupir nógu margar bækur fær sá sami bókahillu með í kaupæti. Svo verður kaffihús á staðnum sem vinkonur mömmu ætla að halda utan um og allur ágóði rennur í skólasjóðinn.“ Þess má geta að posi verður á staðnum auk þess sem stutt er í hraðbanka.

Safnarar ættu að líta við á Neshaganum því á markaðinum kennir flestallra grasa enda segir Elvar að ef einhver sé að velta fyrir sér hvort eitthvað ákveðið sé til á markaðinum séu allar líkur á að það sé til, svo fjölbreytt sé úrvalið. „Ég er til dæmis með fullt af eldgömlum vínylplötum og bókum. Af raftækjunum má nefna orginal Nintendo og aðrar eldgamlar leikjatölvur og raftæki sem ég veit eiginlega ekki alveg til hvers á að nota. Ég á heilt Pókemonsafn sem ég safnaði þegar ég var lítill ef einhver hefur áhuga á svoleiðis og er alveg til viðræðu um að selja það. Svo er gríðarlegt magn af Star Wars myndasögum og fleiru í þessum dúr. Mér finnst að fyrst þetta er komið í tísku aftur ætti fólk að fá að njóta þess.“

Ljósmyndir eftir Elvar verða til sölu á uppboðinu sem haldið er á laugardaginn klukkan þrjú í fjáröflunarskyni fyrir framhaldsnám hans í ljósmyndun.
Þá verður einnig uppboð á óvenjulegustu hlutunum sem komu upp úr kössunum. „Klukkan þrjú á laugardaginn verður uppboð því sumt af því sem ég fann held ég að sé alveg einstakt og væri gaman að lenti hjá einhverjum sem kann að meta það. Þar má til dæmis nefna eldgamlan linguaphone á vínyl frá Sovétríkjunum gömlu, Erika-ritvél, upprunalegt fótanuddtæki, kampavínsflösku og berjatínu frá 1950. Svo verða líka boðnar upp myndir eftir mig.“ Þá verður líka uppboð á netinu á verðmætari munum eins og listaverkum og hönnunarvörum en á flóamarkaðinum verður hægt að skoða þá muni í tölvu.

Fjáröflunin er eins og áður sagði hugsuð til að standa straum af mastersnámi Elvars í ljósmyndun. „Þetta meistaranám er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum og er kallað MA in Commercial Photo­graphy. Námið tekur eitt ár og lokaverkefnið mitt mun snúast um sýndarveruleikaauglýsingar eða „VR advertising“. Ég er einnig að reyna að komast í samstarf með Samsung þar sem þeir eru fremstir í þessum búnaði fyrir hinn almenna notanda. Ég held að ég sé fyrsti Íslendingurinn sem fer í eitthvað svipað nám en ég hef verið að taka ljósmyndir síðan ég var lítill og þá mest í útivistarferðum með björgunarsveitinni og skátunum.“

Flóamarkaðurinn verður aðeins þessa tvo daga því framhaldsnámið bíður og Elvar þarf að vera búinn að losa íbúð móður sinnar fyrir lok ágúst. „Mig langar þess vegna að benda góðgerðarfélögum á að hafa samband við mig því ég mun gefa það sem ekki selst eftir sunnudaginn.“ 

Fleiri upplýsingar um Flóamarkaðinn mikla og lista yfir hluta af því sem þar er að finna má nálgast á Facebook, Flóamarkaðurinn mikli 

Á markaðinum verður meðal annars hægt að finna gamlar leikjatölvur eins og þessa ef einhver er að safna, eða langar bara að rifja upp gamla takta.
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×