Lífið

Gefast hvor öðrum í glænýjum smókingum

Brynhildur Björnsdóttir skrifar
Í mörg horn er að líta þegar á að undirbúa giftingu. Hér er ráðist í samsetningu á tertudiski sem reyndar verður nýttur undir pönnukökur.
Í mörg horn er að líta þegar á að undirbúa giftingu. Hér er ráðist í samsetningu á tertudiski sem reyndar verður nýttur undir pönnukökur. MYND/ERNIR
Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson skipuleggja nú giftingu sína eftir átján ára trúlofun og þar verður skemmtun og smekkvísi að sjálfsögðu í fyrirrúmi.

Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson eru vel þekktir gleðigjafar, Bergþór sem einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar og Albert af mat­seld sinni og vefmiðlinum albert­eldar.com. Þeir hafa verið framarlega í flokki þeirra Íslendinga sem kalla má fagurkera enda sækir fólk í ráðleggingar til þeirra varðandi veisluhöld meðal annars. Það er því ekki úr vegi að forvitnast aðeins um hvernig þeir ætla að hafa sína eigin giftingu sem var ákveðin með nokkuð stuttum fyrirvara eftir átján ára trúlofun. 

„Það hefur oft verið rætt að giftast og ég held að við höfum meira að segja sagt hvor við annan á öðrum degi: það væri fínt að eldast með þér,“ segir Bergþór og Albert bætir við: „Svo verð ég fimmtugur á árinu og við ákváðum að nota tækifærið og slá þessum veislum saman.“

Albert og Bergþór á horninu þar sem þeir hittust fyrst. Þessi mynd prýðir boðskortið í giftinguna.
Undirbúningur lykilatriði

„Undirbúningurinn er svo mikilvægur,“ segir Albert. „Og við erum svo heppnir að eiga margt frábært fólk í kringum okkur sem heimtar að fá að hjálpa til.“ Bergþór nefnir dæmi. „Það verður ekki hefðbundin terta heldur ætlum við að hafa pönnukökur með sultu og rjóma sem verður raðað upp á tertu­disk á mörgum hæðum. Við báðum nokkra listabakara úr hópi vinkvenna okkar að baka pönnukökurnar og þær eru allar svo myndarlegar í eldhúsinu að þær ætla hver um sig að hafa sína eigin sultu með. Önnur vinkona skreytir diskinn og tvær í viðbót sjá um blómaskreytingar en við viljum að flestöll blómin séu úr íslensku náttúrunni.“

Þeir eiga von á tæplega tvö hundruð gestum. „Við settum okkur þá reglu að bjóða aðallega fólki sem við umgöngumst, en samt halda því innan skynsamlegra marka. Við hefðum örugglega getað haft fimm hundruð eða sjö hundruð,“ segir Albert. „Það leysir ótal vandamál að skrifa: „Svar óskast“ á boðskortið, í stað „Látið vita ef þið komist ekki,“ segir Bergþór. „Þá verður til dæmis alveg ljóst hvað á að panta af veitingum. Og ef gestirnir svara ekki, hringir maður bara í þá nokkrum dögum fyrir brúðkaupið og langoftast er svarið: Ó, ég hélt ég ætti bara að láta vita ef ég kæmist ekki. Og málið er leyst.“ 

Og boðskortið getur líka leyst fleiri vandamál. „Það þarf heldur ekki að tiltaka gjafaóskir á boðskortinu, heldur geta gestirnir spurt um slíkt þegar þeir svara. Það er fallegra að gestirnir hafi frumkvæði að slíku. Hvað varðar gjafir þá erum við búnir að búa saman í næstum tvo áratugi og eigum allt,“ segir Albert og Bergþór tekur undir: „Besta gjöfin er að hitta gestina og gleðjast með þeim. En þar sem mörgum fannst óþægilegt að fá ekki að gauka einhverju að okkur, ákváðum við að nefna tvennt sem okkur langaði að gera og ef einhver vildi hjálpa okkur með það, mætti leggja inn litla upphæð á bankareikning. Okkur þykir til dæmis gaman að ferðast og svo þurfum við að gera eitthvað í eldhúsinu því Albert þarf meira pláss, hann býr í eldhúsinnréttingunni.“ „Minn staður er í eldhúsinu,“ segir Albert og kímir.

Bónorð með 200 japönum


Boðskortið í giftinguna er skemmtilega hannað. „Eyjólfur vinur okkar gerði lógó sem er stafirnir okkar og pabbi Bergþórs orti ljóð,“ segir Albert. Á myndinni framan á boðskortinu standa þeir á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis þar sem þeir hittust fyrst. „Ég var á leiðinni heim og stoppaði til að fara yfir götuna. Ég lít við og þá stóð þar þessi skælbrosandi maður sem spurði: Ert þú ekki Bergþór Pálsson? Mig hefur alltaf langað að kynnast þér! Það fór auðvitað í gegnum hugann að fólk sem gengur svona á mann er kannski ekkert endilega fólk sem mann langar til að kynnast en ég sá að þetta var enginn glæpon svo ég sagði: Já, ég er á leiðinni heim til mín, má ég ekki bjóða þér í kaffi? Og hann er ekkert farinn enn þá,“ segir Bergþór.

„Ég vissi auðvitað eins og öll þjóðin hver Bergþór Pálsson var. Mér fannst hann fallegur svo af bar og svo fór það orð af honum að hann væri góður og skemmtilegur líka. Ég var búinn að ákveða að ef ég myndi einhvern tíma hitta hann þá myndi ég segja honum frá því hvað mér fyndist um hann. Svo þegar ég hitti hann þarna á horninu þá datt mér einhvern veginn ekkert annað í hug til að segja,“ segir Albert og Bergþór bætir við: „Sem var líka bara alveg nóg. Við höfum verið trúlofaðir síðan fyrstu áramótin okkar, báðum hvor annars við Perluna í birtunni og hávaðanum frá flugeldunum umkringdir 200 Japönum.“

Saman inn kirkjugólfið

Þeir ætla að ganga saman inn kirkjugólfið í nýjum smókingum sem er fatnaður sem Bergþóri finnst gera alla menn aðeins glæsilegri. „Svaramennirnir verða Páll pabbi minn og Hulda mamma Alberts og þegar þau eru komin inn og sest göngum við inn. Okkur fannst við vera of aldraðir til að láta gefa okkur. Bragi sonur minn syngur í kirkjunni, lag eftir föðursystur mína við ljóð eftir pabba sem hann tileinkar okkur, tvö önnur ljóð verða lesin og tónlist leikin,“ segir Bergþór. „Afa­stelpan okkar, hún Marsibil, verður hringaberi og sú eina sem verður í hvítu,“ segir Albert og bendir á fallegan drifhvítan kjól sem hangir á herðatré. „Hún fær líka það hlutverk að merkja bílinn með orðinu „nýgiftir“ því hún er svo listfeng.“

Í afslöppun í gömlu fjölskylduhúsi í Hörgárdal þar sem þeir sinna hugðarefnum, Albert bloggsíðunni og Bergþór útsaumi en hann hafur saumað mörg falleg verk.
Ræður jafnstuttar og eitt lag

Veislan verður haldin í Salnum í Kópavogi sem var valinn af ákveðinni ástæðu. „Stundum lendir maður í fjölmennri veislu þar sem erfitt er fyrir ræðumenn ogskemmtiatriði að fá athygli svo við vildum fá sal þar sem hægt væri að greina á milli spjallsins og skemmtiatriðanna,“ segir Bergþór.

„Fyrir framan tónleikasalinn verður standandi matarboð sem hún Lukka á Happi ætlar að sjá um fyrir okkur. Við viljum að fólkið sem okkur þykir vænt um hittist og kynnist svo gestum er uppálagt að tala við að minnsta kosti fjóra í veislunni sem þeir hafa ekki talað við áður. Þegar búið er að borða fara allir inn í salinn og þar taka við ræður og skemmtiatriði undir stjórn veislustjórans Sögu Garðarsdóttur,“ segir Albert. „Ég fékk að sjá um tónlistina sem var ekki erfitt því söngvararnir sem við þekkjum vilja allir taka lagið,“ segir Bergþór. „Ég veit svo sem ekki hvað hinir ætla að syngja en get ljóstrað því upp að við Eyjólfur Kristjánsson ætlum að taka Kannski er ástin.“ 

Þeim finnst mikilvægt að setja tímamörk á skemmtiatriði. „Söngvararnir mega bara taka eitt lag hver og ræða má bara taka þann tíma sem nemur einu lagi, svona þrjár til fimm mínútur. Ég hef verið í veislum þar sem mestur tíminn er undirlagður af ræðum. Fólk skrifar ræðu og gerir sér kannski ekki grein fyrir hvað það tekur langan tíma að flytja hana. Það er nauðsynlegt að æfa sig áður og muna að ef þú getur unnið Eurovision á þremur mínútum er það nógur tími til að halda ræðu sem hittir í mark,“ segir Bergþór ákveðinn og Albert samsinnir því. „Svo þegar skemmtiatriðunum er lokið þá koma allir fram aftur og fá sér rjómapönnukökur og svo verður stiginn dans og við ætlum ekki að segja meira frá því hvernig það verður,“ bætir hann við leyndardómsfullur.

Jákvæður fiðringur

Albert og Bergþór eru ekki vitund stressaðir þó stóri dagurinn nálgist. „Við hlökkum bara til, þetta er jákvæður fiðringur enn þá,“ segir Albert og Bergþór bætir við: „Lífið þarf ekki að vera fullkomið og það er jafnvel bara skemmtilegra ef það er það ekki. Það sem skiptir máli er að klára lögformlegheitin og faðma fólkið sitt. Hitt er svo bara punkturinn yfir i-ið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×