Viðskipti innlent

Helmingi minni hagnaður

Sæunn Gísladóttir skrifar
Vísir
Stóru viðskiptabankarnir þrír högnuðust um 9,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2016, samanborið við 26,7 milljarða á fyrsta ársfjórðungi á síðasta ári. Hagnaður þeirra dróst því saman um 64 prósent á milli ára.

Einskiptisliðir sköpuðu verulegan hagnað á síðasta ári. Afkoma bankanna á fyrsta ársfjórðungi er viðunandi, segir í uppgjörum þeirra. Í uppgjöri Landsbankans segir meðal annars að uppgjörið lýsi nú reglubundnum rekstri bankans, án verulegra áhrifa frá óreglulegum liðum.

Hagnaður af reglulegri starfsemi dróst saman hjá Íslandsbanka og Arion banka og arðsemi eigin fjár dróst saman hjá öllum bönkunum. Eiginfjárhlutfall bankanna nam milli 27 og 31,2 prósentum í lok tímabilsins. Heildareignir Íslandsbanka og Landsbankans minnkuðu frá desemberlok 2015, en heildareignir jukust hjá Arion banka.

Aukinn launakostnaður í kjölfar kjarasamninga hafði áhrif á afkomu bankanna. Laun og launatengdur kostnaður hækkaði mest milli ára hjá Arion banka, eða um átján prósent. Í uppgjöri Arion banka segir að rekstrarkostnaður bankans aukist ekki síst vegna áhrifa kjarasamninga en einnig vegna fjölgunar starfsfólks.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí

Hagnaður bankann dregst saman milli ára.vísir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×