Tónlist

East of my Youth með lag í bandarískum sjónvarpsþætti

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Þær Herdís og Thelma skipa dúettinn sem stofnaður var í maí fyrir ári síðan.
Þær Herdís og Thelma skipa dúettinn sem stofnaður var í maí fyrir ári síðan. Mynd/PaulineBatista
Íslenski raftónlistardúettinn East of my Youth, sem starfræktur er í Berlín og skipaður þeim Herdísi Stefánsdóttur og Thelmu Marín Jónsdóttur, gaf nýverið út lagið lagið Mother.

Lagið var frumflutt á vefsíðu i-D Magazine í síðustu viku en það verður á væntanlegri plötu þeirra sem kemur út seint í sumar.



East of my Youth var stofnaður fyrir rúmi ári og hefur meðal annars leikið á tónlistarhátíðunum Sónar, Iceland Airwaves og SxSW í Texas. Lagið Mother var á dögunum selt í bandaríska sjónvarpsþáttinn Faking It sem sýndur er á MTV en að sögn þeirra Thelmu og Herdísar kom tækifærið til í tengslum við tónlistarhátíðina Airwaves. 

„Þá var umboðskonan okkar komin til sögunnar og hún fór á svona „networking“ fund og hitti þar konu sem vinnur fyrir umboðsskrifstofu í L.A. og hún smellti heyrnartólum á eyrun á henni og spilaði demó af laginu,“ segir Thelma og Herdís bætir við: „Og hún sagði bara strax: Vá, hvað þetta passar í þættina.“

Þáttunum er lýst sem rómantískum gamanþáttum og voru þeir fyrst sýndir í apríl árið 2014. Þriðja sería þáttanna er nú í sýningu og má heyra lag East of my Youth í þættinum sem sýndur verður þann 17. maí næstkomandi. Þættirnir segja frá vinkonunum Karma og Amy sem hafa lengi reynt að öðlast vinsældir í skólanum. Ekki hefur það gengið sem skyldi og í kjölfar misskilnings koma þær út úr skápnum sem par og öðlast samstundis gríðarlegar vinsældir. Í þáttunum er svo fylgst með margvíslegum afleiðingum þessa.







East of my Youth er með PR-skrifstofu í London þar sem umboðskona þeirra er staðsett og hafa þær meðal annars komið fram á tveimur Showchase-tónleikum þar í borg. Þær segja það vissulega gott tækifæri og mögulegan stökkpall fyrir tónlist þeirra að fá lag í þáttinn. 

„Nú er bara búið að læsa lagið inn í þáttinn, þannig þetta er bara „signed, sealed, delivered“,“ segir Thelma hlæjandi en töluverð áhersla er lögð á að kynna nýja tónlist í þættinum og er meðal annars gerður lagalisti á tónlistarveitunni Spotify eftir hvern þátt og er áhorfendamarkhópurinn ungt fólk. 

„Reyndar ekki, en litli bróðir minn sem er í MR froðufelldi alveg af æsingi af því það eru víst allir í MR að horfa á þetta,“ svarar Herdís þegar hún er spurð að því hvort þær hafi horft á Faking It. „Þetta er svolítið svona eins og The O.C. fyrir okkar kynslóð,“ segir Thelma.

Þær eru því spenntar fyrir komandi tímum og eru sem stendur staðsettar í Berlín þar sem þær vinna að því að klára plötuna sína og skjóta ekki loku fyrir að efnt verði til útgáfutónleika hér á landi eftir útgáfuna. „Það verða haldnir tónleikar með pompi og prakt einhvers staðar,“ segir Thelma hress að lokum. 



Lagið Mother má heyra í spilaranum hér fyrir neðan: 





Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 13. maí.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.