Erlent

ISIS lýsa árásunum í Jemen á hendur sér

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hart hefur verið barist í Jemen.
Hart hefur verið barist í Jemen. vísir/epa
Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa lýst sprengjuárásunum í Aden í Jemen í dag á hendur sér, þar sem að minnsta kosti tuttugu týndu lífi.

Gerðar voru þrjár árásir í borginni í dag. Tvær bílsprengjur voru sprengdar við eftirlitsstöðvar sem staðsettar eru skammt frá herstöð bandalags Sádí-Araba í Jemen, áður en vopnaðir menn reyndu að brjóta sér leið inn í herstöðina. Mennirnir höfðu þó ekki erindi sem erfiði því liðsmenn bandalagsins svöruðu með skothríð, en ekki er ljóst hvort einhver hafi látist í átökunum.

Þriðju sprengjunni var komið fyrir í sjúkrabíl sem sprengd var skammt frá Mansura í miðborginni.

Síðastliðinn miðvikudag var samið um vopnahlé í Jemen sem á að taka gildi 10. apríl næstkomandi. Þá eiga friðarviðræður að hefjast viku síðar í Kúveit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×