Innlent

Þjóðinni boðið upp á „framlengt dauðastríð“

Sveinn Arnarsson skrifar
Stjórnarandstaðan segist mæta samheldin til þingfundar í dag og ætlar að berjast fyrir vantrausti.
Stjórnarandstaðan segist mæta samheldin til þingfundar í dag og ætlar að berjast fyrir vantrausti. vísir/Ernir
Stjórnarandstaðan mun ekki una niðurstöðu stjórnarflokkanna og hefur þegar lagt fram vantrauststillögu á fyrsta ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar. Árni Páll Árnason segir þjóðina þurfa að horfa upp á dauðastríð ríkisstjórnarinnar og Helgi Hrafn Gunnarsson segir stjórnarflokkana ekki hlusta á ákall þjóðarinnar.

„Að sjálfsögðu ekki,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, þegar hún er spurð hvort útspil stjórnarflokkanna nægi til að lægja öldurnar í þjóðfélaginu. „Það liggur fyrir að þessir flokkar eru að mislesa í stöðuna. Hún er grafalvarleg og þeir hafa ekkert umboð til að mynda ríkisstjórn í sínu nafni. Það er engin spurning að minnihlutinn er klár, samheldinn og tilbúinn til að ræða vantraust.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var harðorður í garð núverandi stjórnarflokka á þinginu í gærkveldi. „Þetta er bara dauðastríð þessara tveggja flokka, þeir geta ekki mannað ráðherrastóla, flokkur með innan við átta prósenta fylgi í könnunum er að taka við forsætisráðuneytinu og Sjálfstæðisflokkurinn er svo laskaður að Bjarni hefur ekki afl til að fara í forsætisráðuneytið. Það er ótrúlegt að þessir menn vilji bjóða þjóðinni upp á að framlengja þetta dauðastríð.“

Helgi Hrafn Gunnarsson gagnrýndi þau orð Bjarna Benediktssonar að stjórnarandstaðan væri í rusli. Núverandi ríkisstjórnarflokkar kæmu sjálfir stórlaskaðir út úr þeim darraðardansi sem einkennt hefur stjórnmálaástandið. „Áhugavert að menn hafi tekið þetta langan tíma í niðurstöðu sem er lítið sem ekki neitt. Þetta virðist vera það sama, þeir halda í hvert hálmstrá til að halda völdum og þetta er ekki í takt við ákall þjóðarinnar um kosningar.“

Þingfundur verður haldinn klukkan hálf ellefu í dag og mun stjórnarandstaðan mæta samheldin til fundar með nýja vantrausts­tillögu í pokahorninu. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar Framtíðar, er hugsi yfir stöðunni. „Þetta kemur ekki á óvart, fyrsta tilfinning mín er að þetta sé redding og við eigum eftir að sjá hvernig þetta fer allt saman,“ segir Óttarr.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. apríl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×