Erlent

Blettatígrar nærri útdauðir

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Verndarsvæði duga ekki til að bjarga blettatígrinum.
Verndarsvæði duga ekki til að bjarga blettatígrinum. Vísir/EPA
Blettatígrar sem eru með fótfráustu spendýrunum eru nærri útdauðir. Þetta sýna nýlegar rannsóknir sem fréttastofa BBC greinir frá.

Telja rannsakendur að einungis séu um 7100 dýr eftir í náttúrunni. Erfitt er að vernda dýrin þar sem þau ferðast jafnan langt út fyrir sérstök verndarsvæði dýra en blettatígrar lifa stærstan hluta ævinnar á ferðalagi.

Það þýðir að mikið af kjörlendi blettatígra er nú undir ásókn mannfólksins sem nýtir það sér til ræktunar og drepur dýr sem blettatígurinn hefði annars veitt. Þá hefur eftirspurn eftir ungum blettatígrum í mörgum löndum Arabíuskagans einnig haft slæm áhrif.

Blettatígrar lifðu áður í bæði Asíu og Afríku en talið er að stofninn í Asíu sé nú alfarið útdauður utan nokkurra dýra sem eftir lifa í Íran. Langstærsti hluti þeirra dýra sem eftir eru lifir í suðurhluta Afríku.

Rannsakendur hafa sagt að vandamál blettatígursins hafi í of langan tíma farið fram hjá mannfólkinu og kalla eftir aðgerðum. Þeir segja ljóst að breyta þurfi venjum í dýravernd, þar sem í þessu tilviki sé ekki nóg að búa bara til verndarsvæði fyrir dýrið.  

Kalla þeir jafnframt eftir því að alþjóðleg dýraverndunarsamtök flokki blettatígurinn undir dýr sem sé í útrýmingarhættu en í dag hefur blettatígurinn stöðu dýrs sem er í hættu á alþjóðlegum listum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×