Erlent

Þúsundir þurftu að yfirgefa heimili sín í Þýskalandi vegna sprengju

Sprengjan var rúmlega tvö tonn.
Sprengjan var rúmlega tvö tonn. Vísir/EPA
Meira en 50 þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín í Augsburg í suðurhluta Þýskalands á jóladag eftir að rúmlega tveggja tonna sprengja frá síðari heimsstyrjöld fannst nærri heimilum þeirra. CNN greinir frá.

Sprengjan fannst við byggingarframkvæmdir á bílakjallara í síðustu viku og ákváðu stjórnvöld að sprengjan yrði ekki gerð óvirk fyrr en á jóladag þar sem ekki var talið að hætta stafaði af sprengjunni.

Því þurftu allir íbúar í 1,5 kílómetra fjarlægð frá sprengjunni að yfirgefa heimili sín á meðan sprengjudeild lögreglunnar gerði sprengjuna óvirka á jóladag. Komið var upp sérstökum miðstöðvum þar sem fólk gat leitað sér athvarfs á meðan sprengjan var gerð óvirk. Aðgerðum við sprengjuna lauk svo farsællega snemma kvölds á jóladag.

Borgarstjóri Augsburg, Kurt Gribl þakkaði mönnunum úr sprengjudeild lögreglunnar fyrir hugrekki sitt á Twitter síðu sinni eftir að sprengjan hafði verið gerð óvirk.

Sprengjur frá seinna stríði eru enn mikið vandamál víðsvegar í Evrópu nú rúmum 70 árum eftir að stríðinu lauk en síðast í janúar 2014 lést maður á jarðýtu í Þýskalandi eftir að hafa keyrt yfir eina slíka sprengju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×