Lífið

Ítalskir og norskir tónar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Lúðrasveitina skipa bæði áhuga- og atvinnutónlistarmenn.
Lúðrasveitina skipa bæði áhuga- og atvinnutónlistarmenn.
„Við erum með alls konar lög eftir marga höfunda, meðal annars Ítalann Ennio Morricone sem er 87 ára og fékk nýlega Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína við The Hateful Eight. Ég sá þá mynd fyrir mánuði og tónlistin er flottasta stöff sem ég hef heyrt lengi,“ segir Lárus Grímsson, stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur sem er með tónleika í Kaldalónssalnum í kvöld.

Lárus minnist líka á lög á efnisskránni eftir annan þekktan höfund, Michael Sweeney, svo og Norðmanninn Jan Magne Förde, þar á meðal brúðarmars sem hefur verið leikinn við konunglegar athafnir í Noregi og hann segir hreina skemmtimúsík.

Lúðrasveit Reykjavíkur á Hljómskálann við Tjörnina og æfir þar. Hún var stofnuð árið 1922 við samruna lúðrasveitanna Hörpu og Gígju og er elsta starfandi hljómsveit landsins. Þar er fólk á öllum aldri sem einbeitir sér að því að spila metnaðarfulla músík, að sögn stjórnandans. „Við erum yfirleitt með þrenna tónleika á ári og svo spilum við úti á 17. júní og öðrum tyllidögum, fyrir borgarbúa og gesti.“

 Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 20 og miðinn kostar 2.000 krónur en frítt er fyrir 12 ára og yngri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×