Fótbolti

Conte hættir með ítalska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte.
Antonio Conte. Vísir/Getty
Antonio Conte ætlar að hætta sem þjálfari ítalska knattspyrnulandsliðsins eftir Evrópumótið í Frakklandi í sumar.

Carlo Tavecchio, forseti ítalska knattspyrnusambandsins, gaf það út í morgun að Conte muni hætta með liðið eftir EM:

Þetta styður við þær sögusagnir að Antonio Conte sé að taka við liði Chelsea í sumar en þessi 49 ára gamli þjálfari hefur verið í viðræðum við Lundúnaliðið í nokkrar vikur samkvæmt heimildum Guardian.

Antonio Conte tók við ítalska landsliðinu af Cesare Prandelli eftir HM 2014 í Brasilíu þar sem Ítalir duttu út úr riðlakeppninni. Hann gerði tveggja ára samning en ætlar ekki að endurnýja hann.

Antonio Conte mun væntanlega skrifa undir þriggja ára samning við Chelsea sem ætti að gefa honum 18 milljónir punda í aðra hönd eða um 3,2 milljarða íslenskra króna.

Antonio Conte stýrði liði Juventus áður en hann tók við landsliðinu og undir hans stjórn vann Juve ítalska meistaratitilinn þrjú ár í röð frá 2012 til 2014. Hann var kosinn þjálfari ársins öll þrjú tímabilin.

Antonio Conte tekur við Chelsea af Hollendingnum Guus Hiddink sem stýrir liðinu út tímabilið eftir að hafa tekið við þegar Jose Mourinho var rekinn.

Ítalska liðið vann sinn riðil í undankeppninni, fékk alls 24 stig út úr 10 leikjum og fjórum stigum meira en Króatíu sem varð í öðru sæti og fimm stigum meira en Noregur sem endaði í þriðja sætinu.

Ítalir eru í riðli með Belgíu, Írlandi og Svíþjóð í úrslitakeppni EM í Frakklandi og fyrsti leikur liðsins er á móti Belgum í Lyon. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×