Enski boltinn

70 prósent líkur á því að Leicester vinni Englandsmeistaratitilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shinji Okazak fagnar sigurmarki sínu í gær.
Shinji Okazak fagnar sigurmarki sínu í gær. Vísir/EPA
Leicester City steig stórt skref í átt að enska meistaratitlinum þegar liðið vann Newcastle í gær og náði fimm stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Leicester hefur nú sjö stigum meira en Tottenham og ellefu stigum meira en Arsenal sem á reyndar leik inni á toppliðið.

Bandaríkjamenn eru duglegir að velta uppi líkum á sigri byggðum á tölfræðilegum útreikningi og ESPN skellti fram sínum útreikningi eftir sigur Leicester í gær.

Samkvæmt nýjustu tölum eru nú 70 prósent líkur á því að Leicester City verði Englandsmeistari 2016.

Tottenham var aðeins tveimur stigum á eftir Leicester fyrir leik gærkvöldsins og Spurs-menn vonuðust eftir hjálp frá Newcastle en af því varð ekki. Tottenham er því aftur fimm stigum á eftir Leicester og nú eru 22 prósent líkur á því að Tottenham vinni sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í 55 ár.

Aðeins fjögur lið komast á blað hjá ESPN-mönnum og það eru heldur ekki miklar líkur á því að Arsenal eða Manchester City nái Leicester-mönnum.

Arsenal hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum og Manchester City hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum. Leicester hefur fengið sex stigum meira en Arsenal í þessum þremur umferðum og sex stigum meira en City í þessum fimm umferðum.

Tölfræðingar ESPN meta það sem svo að það séu aðeins fjögur prósent líkur á því að Arsenal eða City verði enskur meistari. Önnur lið eiga skiljanlega ekki möguleika enda ekki það mörg stig eftir í pottinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×