Skoðun

LHÍ - "Feitur þeytingur“

Stefán Ingvar Vigfússon skrifar
Grein þessi er hluti af greinaskriftaátaki Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS), til þess að vekja athygli á undirfjármögnun íslenskra háskóla.



Ég er sviðslistanemandi við Listaháskóla Íslands. Sviðslistanemar deila húsnæði með tónlistarnemendum, sem er staðsett við Sölvhólsgötu. Listaháskóli Íslands er í tveimur öðrum byggingum, við Laugarnesveg og Þverholt. Þessi ráðstöfun er dýr og kemur niður á menntun okkar nemendanna.

Þetta virðist vera bráðabirgðar lausn sem aldrei sér fyrir endann á. Eðli námsins býður upp á mikil og góð samskipti milli deilda, en landfræðileg staðreyndin kemur í veg fyrir þau. Síðastliðið vor þurfti skólinn að skera niður þjónustu. Mötuneytum var lokað og tveimur bókasöfnum líka, mötuneytin voru síðan einkavædd með tilheyrandi verðhækkunum. Auk þess voru skólagjöld okkar eðlilega hækkuð um 30.000 krónur. Það leynast myglusveppir víðs vegar um Sölvhólsgötuna og ekkert aðgengi fyrir fatlaða nemendur. Þessi ópraktíska og kostnaðarsama ráðstöfun leiðir huga minn óhjákvæmilega að Ísbúð Vesturbæjar.

Ef maður nennir ekki í Bónus einhverja helgina og veit til þess að ísskápurinn er tómur þegar maður verður svangur lætur maður ef til vill freistast og fær sér þeyting í hádegismat. Þeytingur er ekki bara dýrari en heimagerð máltíð, hann er líka óhollari. Ef maður fær sér bragðaref á dag í Ísbúð Vesturbæjar kostar það 30.000 krónur á mánuði.

Ef maður gerir það þrisvar á dag kostar það 90.000 krónur á mánuði, rúmlega milljón á ári. Fyrir utan það eru allar líkur á því að manni skortir flest næringarefni sem fólk þarf til þess að lifa af. Maður fær að öllum líkindum sykursýki. Það sér hver heilvita einstaklingur að þetta er ekki góð ráðstöfun. Betra væri að fara vikulega í Bónus og sjá til þess að maður fái öll nauðsynleg næringarefni. Líklega kostar ein Bónusferð meira en einn þeytingur, en fjárfestingin á óneitanlega eftir að skila sér.

Til þess að setja menntun í fyrsta sæti er nauðsynlegt að fjárfesta í henni til lengri tíma. Skyndilausnir skila engu öðru en sykursýki og verða mun kostnaðarsamari þegar til lengri tíma er litið. Hættum að borða þeyting í hádegismat og fjárfestum í háskólanámi.

Við hvetjum alla til þess að skrifa undir áskorun til stjórnvalda þess efnis að setja menntamál í forgang. #háskólaríhættu #FundOurFuture




Skoðun

Sjá meira


×