Innlent

55 prósent Íslendinga ferðuðust til útlanda í sumar

Atli Ísleifsson skrifar
Utanlandsferðir eru talsvert algengari meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarinnar.
Utanlandsferðir eru talsvert algengari meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarinnar. Vísir/GVA
Nær 55 prósent Íslendinga ferðuðust til útlanda síðastliðið sumar samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Það eru nokkru fleiri en sumarið 2015 þegar 47 prósent aðspurðra sögðust hafa ferðast til útlanda um sumarið.

„Fjöldi þeirra sem ferðast til útlanda í sumarfríinu hefur aukist nokkuð jafnt og þétt frá því fyrst var spurt 2010 en þá hafði þriðji hver svarandi ferðast til útlanda um sumarið.

Utanlandsferðir eru talsvert algengari meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarinnar. Þær eru einnig algengari meðal þeirra sem hafa lokið háskólaprófi en þeirra sem hafa minni menntun að baki, og algengari meðal fjölskyldna sem hafa samanlagt 400.000 kr. á mánuði í tekjur eða meira, heldur en meðal fjölskyldna sem hafa lægri fjölskyldutekjur en það,“ segir í tilkynningu.

Einnig var spurt um ferðalög innanlands, en 75 prósent sögðust hafa ferðast innanlands í sumar. Færri ferðuðust innanlands síðustu tvö sumur en á árunum 2010 til 2012.

Þeir sem ferðuðust til útlanda gistu hver samtals nærri þrettán nætur að meðaltali á ferðalögum sínum og þeir sem ferðuðust innanlands gistu hver samtals næstum níu nætur að meðaltali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×