Erlent

Ítalir leggja til að fangelsa foreldra sem þröngva veganisma á börnin sín

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frumvarp þess efnis liggur nú fyrir ítalska þinginu.
Frumvarp þess efnis liggur nú fyrir ítalska þinginu. Vísir/EPA
Foreldrar sem þrönga veganisma á börnin sín gætu þurft að dúsa í fangelsi verði umdeilt frumvarp þess efnis að lögum. Frumvarpið liggur nú fyrir ítalska þinginu.

Í frumvarpinu segir að foreldrar sem geri slíkt komi í veg fyrir að börn fái mikilvæg næringarefni sem stuðli að heilbrigðum vexti. Hægri flokkurinn Forza Italia stendur að baki frumvarpinu.

Undanfarna átján mánuði hafa fjögur mál komið upp á Ítalíu þar sem börn voru send á sjúkrahús vegna vannæringar í kjölfar vegan-mataræðis. Fyrr á árinu var fjórtán mánaða ítalskt barn tekið úr forsjá foreldra sinna sökum vanrækslu. Drengurinn hafði verið á vegan-mataræði hjá foreldrunum.

Að vera vegan þýðir að þú borðar engar dýraafurðir. Næringarfræðingar í Bandaríkjunum segja hins vegar að vegan-mataræði henti börnum svo lengi sem gengið sé úr skugga um að þau fái öll þau næringarefni sem þau þurfi á að halda, þá sérstaklega B12-vítamín.

Telja læknar víst að það hafi foreldrar þeirra barna í þeim málum sem komið hafa upp ekki áttað sig á. Frumvarp Forza Italia fer fyrst fyrir nefndir ítalska þingsins áður en það verður rætt í þingsal. Í frumvarpinu er lagt til að þeir sem brjóti gegn lögum í þessum málum geti hlotið eins árs fangelsi en séu brotin alvarleg muni refsiramminn hækka í fjögur ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×