Innlent

Algengt að læknar vísi á sjálfan sig

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Rúmlega helmingur lækna á Landspítalanum er í hlutastarfi. Landlæknir telur algengt að þeir læknar vísi sjúklingum sínum á spítalanum til sín á einkastofu.  Það sé ekki í lagi og að bregðast þurfi við.

Um fimmtíu til sextíu prósent lækna á Landspítalanum eru í hlutastarfi en landlæknir segir flesta af þeim læknum einnig vera í hlutastarfi á einkastofu. „og þeir vísi sínum sjúklingum til sín á einkastofu. Það er eitthvað sem ég held að sé nokkuð algengt,“ segir Birgir Jakobsson landlæknir.

Þetta sé ekki leyfilegt í þeim löndum sem hann þekkir til. „Þar eru mjög ákveðnar reglur um aukastörf heilbrigðisstarfsfólks vegna þess að þú þarft að hafa ákveðið traust og ekki þannig að þú getir raunverulega verið grunaður um að maka krókinn af þínu aðalstarfi,“ segir hann.

Þorbjörn Jónsson, formaður læknafélags Íslands, segir ekki hægt að fullyrða að slík hlutastörf séu óeðlileg. „Nei bara alls ekki. Það er vegna þess að við getum ekki borið okkar aðstæður saman við aðstæður í samfélögum sem eru miklu miklu stærri og hafa miklu fleiri lækna per sérgrein,“ segir Þorbjörn og bætir við að hann hafi auðvitað ekkert á móti því að Landlæknir kanni málið.

Birgir útskýrir að þessi staða hafi verið að þróast hér á landi síðustu áratugi. Það sé verið að bregðast við, en þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um heilbrigðisstefnu til ársins 2022, taki vel á þessu máli.

Í henni segir að marka þurfi skýra stefnu í mannauðsmálum heilbrigðisþjónustunnar. Lögð verði áhersla á að skilgreina ábyrgð, verksvið og afköst helstu starfsstétta. Setja þurfi reglur um aukastörf heilbrigðisstarfsmanna þannig að þau virki ekki hindrandi á aðalstarf, séu ekki skaðleg trúverðugleika starfsmanns eða í samkeppni við aðalvinnuveitanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×