Erlent

Guterres næsti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Antonio Gutierres.
Antonio Gutierres. vísir/epa
Antonio Guterres fyrrverandi forsætisráðherra Portúgal verður næsti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Þetta var staðfest á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag en formleg atkvæðagreiðsla um fer þó ekki fram fyrr en á morgun. Öryggisráðið mælir með Guterres sem framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við Allsherjarþing SÞ sem þarf að samþykkja tilnefningu Öryggisráðsins.

Í dag fór fram leynileg atkvæðagreiðsla í ráðinu þar sem fulltrúar þeirra fimmtán ríkja sem eiga sæti þar kusu á milli þeirra tíu sem valið stóð um. Þrettán kusu með því að mæla með Guterres í embættið og tveir mæltu hvorki með neinum né á móti neinum.

Fulltrúi Rússa í Öryggisráðinu Vitaly Churkin kynnti niðurstöðu kosningarinnar fyrir fjölmiðlum. Hann sagði að allir þeir sem komu til greina í embættið hafi verið vel hæfir til þess að gegna því en augljóst væri að öryggisráðið vildi fá Guterres til starfans. Einhverjir höfðu vonast eftir því að kona yrði nú kosin til embættisins en kona hefur aldrei verið framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Guterres mun taka við sem framkvæmdastjóri í byrjun næsta árs af Ban Ki-Moon sem gegnt hefur embættinu í tíu ár.

Vísir fjallaði ítarlega um feril Guterres í ágúst síðastliðnum en hann fæddist í Lissabon árið 1949. Hann var forsætisráðherra Portúgals á árunum 1995 til 2002 en árið 2005 varð hann yfirmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Því embætti gegndi hann til ársins 2015 en nánar má lesa um feril Guterres hér.


Tengdar fréttir

Portúgali líklegasti arftaki Ban Ki-moon

Fyrrum forsætisráðherra Portúgal, Antonio Gutierres, er talinn vera líklegasti arftaki Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×