Erlent

Stefnir í að pólsk yfirvöld hætti við umdeilda fóstureyðingarlöggjöf

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Konur í Varsjá mótmæla áformum stjórnarinnar um allsherjarbann við fóstureyðingum.
Konur í Varsjá mótmæla áformum stjórnarinnar um allsherjarbann við fóstureyðingum. vísir/epa
Fyrirhugaðar breytingar pólskra yfirvalda á fóstureyðingarlöggjöf munu ekki ganga í gegn að sögn ráðherra í ríkisstjórn Póllands. Segir hann að fjölmenn mótmæli pólskra kvenna á mánudaginn þar sem þúsundir andstæðinga breytingana lagði niður störf til þess að sýna andstöðu við breytingarnar.

Lög um fóstureyðingar í Póllandi eru nú þegar ein þau ströngustu í Evrópu. Samkvæmt nýju lögunum, em þykja afar umdeild, yrði gengið enn lengra og fóstureyðingar bannaðar með öllu nema ef móðirin er í lífshættu. Viðurlög við fóstureyðingum yrðu fimm ára fangelsi, bæði fyrir móðurina og þá sem kunna að framkvæma aðgerðina.

Jaroslaw Gowin, menntamála- og vísindaráðherra í pólsku stjórninni segir að mótmælin hafi breytt afstöðu ríkistjórnarinnar sem hafi fengið lexíu í auðmýkt frá pólskum konum en mótmæli þeirra voru meðal annars innblásin af kvennafrídeginum hér á landi árið 1975 þegar um 25 þúsund konur á Íslandi lögðu niður störf og mótmæltu kynbundnum launamismun á útifundi á Lækjartorgi. Ólíklegt sé að málið muni ganga í gegn

Auk mótmælanna hefur alþjóðasamfélagið þrýst á pólsk yfirvöld um að hætta við breytingarnar, þar á meðal íslenskir þingmenn auk þess sem að haldinn var samstöðufundur á Austurvelli. Ræða á stöðu kvenna í Póllandi á sérstökum fundi í Evrópuþinginu í dag.

Í dag sagði forseti öldungardeildar pólska þingsins, Stanislaw Karcewski, að öldungadeildin myndi ekki hefja umræðu um nýju löggjöfina og að neðri deild þingsins, sem er valdameiri en öldungadeildin, yrði að taka afstöðu til málsins fyrst. Eftir ummæli ráðherrans þykir ólíklegt að ríkisstjórn Póllands muni þrýsta lögunum í gegnum þingið.


Tengdar fréttir

Pólskar konur mótmæltu

Áformum pólsku ríkisstjórnarinnar um að banna fóstureyðingar var harðlega mótmælt í gær með kvennaverkfalli og fjöldafundum víða í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×