Innlent

Barði sambýliskonu sína með kertastjaka og stakk hana í augun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi.
Maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi. vísir/heiða
Karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir endurteknar líkamsárásir á fyrrverandi sambýliskonu sína árið 2012 og 2013. Ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var í tveimur liðum.

Annars vegar var maðurinn ákærður fyrir líkamsárásir í lok nóvember 2013 fyrir að hafa ráðist á konuna með höggum og spörkum í andlitið þannig að hún féll einu sinni á járnhlið, tekið hana kverkataki og troðið fingrum í augu hennar og mun með þeim afleiðingum að hún hlaut meðal annars glóðurauga á báðum augum.

Hins vegar fyrir að hafa í maí 2012 slegið konuna með kertastjaka í síðuna með þeim afleiðingum að hún hlaut rifbrot. 

Dómarinn taldi frásögn konunnar fá stuðning í sumum tilvikum í vitnisburði dóttur hennar og kærasta dóttur hennar en öðrum í skýrslum lögreglu og heilbrigðisstarfsmanna. Framburður mannsins var hins vegar breytilegur og töluvert misræmi í honum. Í báðum ákæruliðum þótti hafið yfir vafa að maðurinn hefði valdið konunni þeim áverkum sem greindi í ákærðu.

Maðurinn á að baki langan sakaferil og meðal annars verið dæmdur 19 sinnum fyrir brot á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.

Konan fór fram á sjö milljónir króna í miskabætur en héraðsdómur mat hæfilegar bætur eina milljón króna. 

Dóm héraðsdóms má lesa í heild hér.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×