Erlent

Yfirgaf ekki heimili foreldra sinna í þrjátíu ár

Atli Ísleifsson skrifar
Ýmislegt er á huldu varðandi mál mannsins.
Ýmislegt er á huldu varðandi mál mannsins. Vísir/Getty
Lögregla í Þýskalandi rannsakar nú mál manns í bæverska bænum Bayreuth sem er sagður ekki hafa yfirgefið heimili foreldra sinna í þrjátíu ár.

BBC segir frá því að ekki hafi sést til mannsins, sem nú er 43 ára, frá því að hann hætti að sækja skóla, þrettán ára gamall.

Lögregla segir að hann líti út fyrir að hafa verið vanræktur, en þó ekki vannærður. Lögð er áhersla á að ekki er víst að foreldrar mannsins verði ákærð, þar sem mögulega sé um fjölskylduharmleik að ræða frekar en að þeir hafi gerst brotlegir við lög.

Móðir mannsins hefur greint þýskum fjölmiðlum frá því að sonur hennar hafi ekki viljað fara að heiman og hún hafi einungis viljað vernda son sinn.

Lögreglu barst ábending um málið í síðasta mánuði og fór þá með manninn í læknisskoðun. Hann hefur ekki verið nafngreindur.

Talsmaður lögreglu, Jürgen Stadter, segir að lögregla viti ekki nákvæmlega hvað maðurinn hafi dvalið lengi hjá foreldrum sínum án samskipta við aðra. Þá sé ekki vitað hvort hann hafi haft færi á að yfirgefa heimilið. „Kannski vildi maðurinn hafa þetta svona,“ segir Stadter.

Einu skráðu opinberu gögnin um manninn sem lögregla hefur haft uppi á eru um þrjátíu ára gömul, þar sem fram kemur að hann hafi sótt grunnskóla. Í þrjátíu ára gömlum gögnum frá skólayfirvöldum segir að hann hafi ekki verið í standi til að sækja þar skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×