Innlent

Listakonan sem var rekin af leikskólanum slær í gegn

Jakob Bjarnar skrifar
Vala segir fólk óttast það að rugga bátum og óttinn ráði för: Korter í bugun.
Vala segir fólk óttast það að rugga bátum og óttinn ráði för: Korter í bugun.
Jóhanna Vala Höskuldsdóttir er listamaður, sem starfaði í tvo mánuði sem leiðbeinandi á leikskóla, en hún var nú í vikunni rekin úr því starfi sem í ljósi þess að nánast hver sem er getur, vegna þeirra kjara sem er í boði, fengið þar vinnu er talsvert áfall: Eftirspurn eftir starfsfólki er mikil.

Jóhanna Vala skrifaði pistil sem birtist á Vísi í dag og hefur sá pistill vakið gríðarlega athygli sé litið til lestrarmælinga Vísis. Jóhanna Vala kann að halda um penna, því hún bókstaflega sogar lesandann inn í textann, sem situr ef til vill eftir með fleiri spurningar en svör. Og ljóst má vera að hún veit alveg hvað hún er að gera.

„Já, ég vandaði mig,“ segir Vala í samtali við blaðamann Vísis.

Ekkert umburðarlyndi gagnvart gagnrýnum spurningum

Spurningin sem brennur á lesendum er: Hvers vegna var Jóhanna Vala rekin? Lesandinn þarf að halda vöku sinni vel til að komast að því. Og Vala er ekki reiðubúin að upplýsa of mikið, eðli máls samkvæmt.

„Ég ákvað að fara ekki í einhver smáatriði,“ segir hún og bendir á að hún vilji skilja eftir þessa tilfinningu með lesandanum.

„En, það var vegna þess að ég spurði óþægilegra spurninga. Ég var í rauninni að sinna vinnunni minni og um leið vera sú gagnrýna listakona sem ég er. En það var ekkert umburðarlyndi gagnvart því. Þá er ég að rugga bátnum og þær urðu hræddar um að bátnum myndi hvolfa.“

Korter í bugun

Vala segir fólk búið að missa alla trú á að ástandið batni. Sú von er horfin. Þegar hún spurði út í atriði er snéru að rekstri leikskólans, hvort ekki vantaði fé hér og fólk þar, var horft á hana í forundran.

„Og mér klappað á kolli. Snýst ekki um að ég sé að hefna mín á þeim sem ráku mig, vil ekki fara í hártoganir eða nafnabendingar eða neitt slíkt.“

Þú ert að lýsa ótta?

„Já, og korter í bugun.“


Tengdar fréttir

Listakona rekin af leikskóla

Ég var rekin af leikskóla í fyrradag. það er ekki eitthvað sem ég myndi undir venjulegum kringumstæðum bera á borð fyrir alþjóð. Ég er meðvituð um skömmina sem á að fylgja því að vera rekin, og ég tala nú ekki um að vera rekin af leikskólastofnun sem þjáist sárlega af undirmönnun og er í engri stöðu til að vera vandlát þegar kemur að ráðningu starfsfólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×