Ariel Helwani, einn þekktasti MMA-fréttamaður heims, fullyrðir á mmafighting.com að Gunnar Nelson muni berjast við Suður-Kóreumanninn Dong Hyun Kim í Belfast þann 19. nóvember.
Þetta hefur UFC ekki staðfest en í síðustu viku var greint frá því að UFC bardagakvöld yrði haldið í Belfast á þessum degi. Gunnar nýtur gríðarlega vinsælda í Írlandi, þar sem hann hefur áður keppt og æft lengi með þjálfara sínum, John Kavanagh.
Sjá einnig: Fær Gunnar bardaga í Belfast í nóvember?
Helwani fullyrðir að þetta verði aðalbardagi kvöldsins sem þýðir að hann verður fimm lotur en ekki þrjár eins og í öðrum bardögum. Þetta yrði þá í annað skipti Gunnar fengi aðalbardaga á UFC-kvöldi en í fyrra skiptið var það gegn Rick Story í Stokkhólmi þar sem sá bandaríski hafði betur.
Gunnar barðist síðast við Rússann Albert Tumenov í Rotterdam í maí og hafði þar sigur úr býtum en alls hefur Gunnar unnið sex af átta UFC-bardögum sínum og fimmtán af átján MMA-bardögum alls.
Kim er 34 ára þaulreyndur bardagakappi með sextán bardaga að baki í UFC og 26 atvinnumannabardaga alls í MMA. Hann hefur tapað þremur bardögum á ferlinum, öllum gegn heimsþekktum köppum líkt og fjallað er um í úttekt sem birtist á vef MMAfrétta.
Kim deilir 10. sæti styrkleikalista UFC í veltivigt með Rick Story en Gunnar kemur svo næstur í tólfta sæti.
Miðasala fyrir bardagakvöldið í Belfast hefst 23. september en búast má við því að átta þúsund miðar verði til sölu.
