Körfubolti

Tony Parker og félagar komust til Ríó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker og félagar í franska landsliðinu gátu fagnað sæti á ÓL.
Tony Parker og félagar í franska landsliðinu gátu fagnað sæti á ÓL. Vísir/EPA
Serbía, Króatía og Frakkland urðu um helgina þrjú síðustu liðin til þess að tryggja sér sæti í keppni í körfubolta karla á Ólympíuleikunum í Ríó, sem fara fram í ágúst.

Þrjú hraðmót voru haldin um helgina, á þremur mismunandi stöðum, þar sem keppt var um þessi þrjú síðustu sæti.

Króatar lögðu Ítali í Tóríno, 84-78 á laugardaginn. Sama dag fór fram leikur Serba og Puertó Ríkó í Belgrade í Serbíu. Þar höfðu heimamenn betur 108-77.

Frakkar tóku síðan þriðja lausa sætið með því að vinna hið efnilega lið Kanada 83-74.

Tony Parker gaf kost á sér í verkefnið og var í lykilhlutverki í úrslitaleiknum þar sem hann skoraði 26 stig og gaf 4 stoðsendingar. Það var samt skotbakvörðurinn Nando De Colo sem var valinn besti leikmaður hraðmótsins á Manilla.

De Colo var með 22 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta í sigrinum á Kanada. Hann spilaði í vetur hjá CSKA Moskvu í Rússlandi.

Tony Parker skoraði tíu stig á síðustu þremur mínútum leiksins og landaði öðrum fremur sigrinum. Hann setti niður þrist, sniðskot og hitti síðan úr fimm vítum þegar Kanadamenn voru að reyna að vinna upp muninn.

Búið er að draga í riðla fyrir Ólympíuleikana en körfuboltakeppnin hefst 6. ágúst. Frakkar og Serbar drógust í riðil með Bandaríkjunum, Venesúela, Kína og Ástralíu. Fyrsti leikur Frakka verður á móti Ástralíu en lokaleikur Frakka í riðlinum verður á móti bandaríska liðinu.

Króatar verða með Nígeríu, Litháen, Brasilíu, Spánverjum og Argentínumönnum.

Kvennamegin eru einnig tveir riðlar.Í A-riðli eru Frakkland, Japan, Brasilía, Ástralía, Hvíta Rússland og Tyrkland. Í B-riðli eru Kanada, Spánn, Bandaríkin, Senegal, Serbía og Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×