Viðskipti innlent

Íslenskir býflugnabændur anna ekki eftirspurn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Íslenskir býflugnabændur anna ekki eftirspurn eftir hunangi þrátt fyrir að sumarið hafi verið einstaklega gott fyrir býflugurnar. Kílóið af íslensku hungangi er með því dýrasta í heiminum en það kostar tólf þúsund krónur.

Í Kópavogi ræktar Egill Rafn Sigurgeirsson býflugur í garðinum hjá sér. Egill er læknir og formaður Býflugnarætkendafélags Íslands og hefur ræktað býflugur í áraraðir.

Egill segist alloft hafa verið stunginn. „Fyrst og fremst er það nú klaufaskapur hjá mér ef ég hef verið stunginn,“ segir Egill.

Hann á ellefu býflugnabú sem eru í garðinum auk þess sem hann aðstoðar aðra við bú sín. Býflugurnar sem ræktaðar eru finnst ekki úti í náttúrunni.

Hann segir félaga í Býflugnaræktendafélagi Íslands vera um eitt hundrað. „Núna hefur verið mjög góð tíð. Bara alveg ljómandi tíð. Sérstaklega þá miðað við tvö síðustu sumur sem að voru alveg skelfileg,“ segir Egill

Hann segir kílóverðið á hunanginu vera tólf þúsund krónur og að býflugnabændur anni ekki eftirspurn. „Reksturinn hefur aldrei borgað sig enda kannski ekkert ætlast til þess,“ segir Egill. „Heildarframleiðslan hefur verið um tonn hjá okkur af íslensku hunangi en það eru ekki öll bú sem gefa og það eru ekkert allir býflugnabændur sem að taka frá þeim hunang einfaldlega vegna þess að við erum kannski ekkert að þessu fyrst og fremst fyrir hunangið heldur fyrir ánægjuna af því að halda dýrin,“ segir Egill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×