Innlent

Pottaskefill prýðir upptendrað Óslóartréð

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Tendrað verður á Oslóartrénu kl 16 í dag
Tendrað verður á Oslóartrénu kl 16 í dag Vísir/Vilhelm
Nú styttist svo sannarlega í jólin og nóvember fer senn að kveðja. Fyrsti í aðventu er í dag og því munu margir tendra á fyrsta aðventukertinu til marks um komu hátíðanna. Klukkan 16 á Austurvelli verður aðventunni og hátíð ljóssins fagnað með pompi og prakt þegar Völundur Ingi Steen Bjarnason, 7 ára norsk-íslenskur drengur, mun kveikja á jólaljósum hins fræga Óslóartrés. Tendrun jólaljósanna á Óslóartrénu minnir einnig á áratuga vinasamband milli borganna tveggja.

Tréð verður prýtt jólaóra Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Jólaóróinn var hannaður af Signýju Kolbeinsdóttur og er hann eftirmynd Pottaskefils sem allir þekkja svo vel. Í tilefni þessa verður flutt ljóð um sveininn sem samið var af Snæbirni Ragnarssyni eða Bibba í Skálmöld eins og hann er betur þekktur. Júlíana Óskarsdóttir, sigurvegari Stóru upplestrarkeppni grunnskólanna mun flytja ljóðið af sinni einskæru snilld.

Pottaskefill bíður spenntur eftir að fá að hanga á OslóartrénuVísir/Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
Saga óróans er fallegt og merk. Fyrsti óróinn kom út fyrir tíu árum síðan og var hann í líki jólasveinsins Kertasníkis. Reykjavíkurborg hefur stutt verkefnið frá upphafi með því að skreyta Óslóartréð með óróa ársins.

Allur ágóði af sölu óróans mun fara til Æfingastöðvarinnar en börn og ungmenni með frávik í þroska og hreyfingum fá þar þjónustu frá sjúkra- og iðjuþjálfa við að bæta færni sína bæði í leik og starfi. Þetta auðveldar þeim að þroskast og dafna. Á Æfingastöðina sækja einnig fullorðnir einstaklingar sem eru með Parkinsonsjúkdóminn eða hafa verið hreyfihamlaðir frá barnæsku

Hér er því um fallegt málefni að ræða sem er í anda jólanna, hátíð ljóss og friðar.

Dagskrá dagsins

Dagskráin hefst kl 14 í Ráðhúsi Reykjavíkur en þar verður frumsýnd norska jólakvikmyndin, Sólon og Lúðvík: Jól í Furufirði. Óslóarborg færir borginni myndina að gjöf og hefur hún verið talsett á íslensku. Myndin verður sýnd á sunnudögum kl 14 á aðventunni.

Klukkan 16 mun Erik Lunde, borgarfulltrúi Óslóarborgar, afhenda tréð formlega á Austurvelli og veitir S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, gjöfinni viðtöku og flytur þakkarávarp.

Salka Sól og Valdimar munu syngja aðventuna inn í hug og hjörtu landsmanna ásamt einvalaliði tónlistarfólks. Lúðrasveit Reykjavíkur mun einnig stíga og stokk og búist er við að jólasveinar knáir hafi stungið af úr fjöllunum og muni bregða á leik, börnum og fullorðnum til skemmtunar.

Gerður G. Bjarklind, röddin sem allir landsmenn þekkja og dá, mun kynna dagskrána en þetta er í 17. skipti sem hún gerir það.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×