Innlent

Slitnar upp úr samstarfi Jafnaðarmanna og Fjallabyggðarlistans í Fjallabyggð

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. Vísir/Gísli Berg
Slitnað hefur verið upp úr meirihlutasamstarfi Jafnaðarmanna og Fjallabyggðarlistans í sveitarstjórn Fjallabyggðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Steinunni Maríu Sveinsdóttur, oddviti Jafnaðarmanna, og segir að upp úr slitnaði í kjölfar „trúnaðarbrests sem varð á milli oddvita Fjallabyggðarlistans og annarra bæjarfulltrúa meirihlutans“.

Kristinn Kristjánsson er oddviti Fjallabyggðarlistans, en ekki hefur náðst í hann.

Þá segir að í framhaldi af þessari niðurstöðu hafi verið teknar upp viðræður milli Jafnaðarmanna og Sjálfstæðisflokks um meirihlutasamstarf. Fyrir liggur málefnasamningur sem bíður samþykktar flokkanna á næstu dögum.

Ekki hefur náðst í Steinunni Maríu.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, segist í samtali við Vísi ekki vita hvaða áhrif þetta hafi á hans stöðu, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Tilkynningin í heild sinni:

Yfirlýsing frá Jafnaðarmönnum í Fjallabyggð

Í kjölfar trúnaðarbrests sem varð á milli oddvita Fjallabyggðarlistans og annarra bæjarfulltrúa meirihlutans hefur nú slitnað upp úr meirihlutasamstarfi Jafnaðarmanna í Fjallabyggð og Fjallabyggðarlistans.


Jafnaðarmenn harma að til þessa hafi mátt koma en þakka því góða fólki sem stendur að Fjallabyggðarlistanum fyrir gott og árangursríkt samstarf.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu voru teknar upp viðræður milli Jafnaðarmanna og Sjálfstæðisflokks um meirihlutasamstarf. Fyrir liggur málefnasamningur sem bíður samþykktar flokkanna á næstu dögum.

Steinunn María Sveinsdóttir, oddviti




Fleiri fréttir

Sjá meira


×