Skoðun

Tvær þjóðir í einu landi

Árni Páll Árnason skrifar
Ríkisstjórn ríka fólksins gerir það ekki endasleppt. Nýjasta framlag hennar er frumvarp sem gerir ráð fyrir að efnuðustu einstaklingarnir fái að taka erlend lán, en ekki aðrir. Verði það að lögum mun þjóðin öll bera kerfisáhættuna af slíkum lánveitingum, en lántakendurnir einir njóta ávinningsins. Þau borgaralegu réttindi að fá að taka lán í þeim gjaldmiðli sem bestu kjörin veitir verða þannig bundin við ríkasta fólkið. Það er kaldhæðnislegt að þessi nýja flokkun réttinda eftir efnastöðu fólks skuli lögleidd réttum hundrað árum eftir að numið var úr lögum að einungis efnuðustu borgarar landsins mættu kjósa.

Það er áhyggjuefni að gjaldmiðill landsins sé svo veikburða að hann þoli ekki að fólk velji sér lánaform og eigi frjáls viðskipti með gjaldmiðla. En það er engu að síður staðreyndin. Lánveitingar í erlendum gjaldmiðli til aðila sem ekki hafa tekjur í sama gjaldmiðli valda kerfisáhættu og sú áhætta getur, eins og dæmin sanna, rústað gjaldeyrismarkaðnum og keyrt upp verðbólgu og þar með öll verðtryggð og óverðtryggð lán heimilanna. Þessa áhættu munum við öll bera, verði frumvarpið að lögum en hin auðuga forréttindastétt mun ein njóta hagræðis af lágum erlendum vöxtum. Leiðin úr höftum og háum vöxtum er nýr gjaldmiðill en ekki aukin réttindi ríkra umfram aðra.

Hverjum er þjónað?

Nú þegar njóta stærstu fyrirtækin þess að geta fengið lán á alþjóðlegum kjörum en minni fyrirtæki eru bundin við krónuna og ofurvexti hennar. Venjuleg smáfyrirtæki greiða nú vexti sem einungis skipulögð glæpastarfsemi þarf að greiða í nálægum löndum. Nú vill ríkisstjórnin festa þessa skiptingu enn frekar í sessi. Í Sovétríkjunum var líka til forréttindastétt sem fékk að versla í dollarabúðum og almenningur sem var bundinn við rúblu sem hvergi var hægt að eiga viðskipti með utan landsteinanna. Hliðstæðan við krónuhagkerfið er orðið sláandi. Krónan býr því óhjákvæmilega til tvær þjóðir í landinu: Forréttindahóp sem er laus við neikvæðar afleiðingar hennar og býr áhyggjulaus við alþjóðleg viðskiptakjör og venjulegt fólk sem ber verðtrygginguna, ofurvextina – sem sagt allan kostnaðinn og áhættuna. Við sjáum nú hvorri þjóðinni ríkisstjórnin þjónar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×