Í nýrri skoðanakönnun Gallup sem nú er verið að gera er spurt hvort viðtakandinn sé jákvæður eða neikvæður gagnvart því að dr. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, verði næsti forseti Íslands og setjist ásamt maka sínum, Felix Bergssyni, á Bessastaði. Spurningin er hluti af Gallupvagninum og er send á 1.400 manns. Ekki var spurt um aðra mögulega frambjóðendur í könnuninni.
„Ég kem alveg af fjöllum,“ segir Baldur inntur eftir því hvort hann hafi vitað af könnuninni. Hann segist ekki hafa keypt spurninguna og að forsetaframboð sé ekki á dagskrá.
„Það hefur fólk talað við okkur og spurt um þetta en meira veit ég ekki,“ segir Baldur.
Að sögn starfsmanns Gallup kostar ein spurning í könnuninni 120.900 krónur, reiknuð með virðisaukaskatti. Hver sem er getur spurt um hvað sem er svo framarlega sem spurningin þyki ekki særandi og aðferðafræðilega rétt.
