Innlent

„Ég er eins sáttur og það gerist miðað við aðstæður“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einar Örn Adolfsson þarf ekki að sitja inni vegna fíkniefnainnflutnings sumarið 2011. Málsmeðferðin hefur tekið á fimmta ár en hann fékk sex ára óskilorðsbundinn dóm vorið 2014.
Einar Örn Adolfsson þarf ekki að sitja inni vegna fíkniefnainnflutnings sumarið 2011. Málsmeðferðin hefur tekið á fimmta ár en hann fékk sex ára óskilorðsbundinn dóm vorið 2014. Vísir
Einar Örn Adolfsson, sem dæmdur var í sex ára fangelsi fyrir innflutning á 30 þúsund e-töflum sumarið 2011, fékk fjögurra ára skilorðsbundinn dóm í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Tæplega tvö ár eru liðin síðan sex ára dómurinn var kveðinn upp. Dómurinn var fjölskipaður.

Einar Örn var nokkuð sáttur við dóminn í dag, miðað við aðstæður, en hafði lítinn tíma í spjall enda flug utan til Bandaríkjanna síðar í dag þangað sem Einar Örn og kona hans ætla að sækja bestu mögulegu læknisaðstoð fyrir dóttur sína. Þau voru á leið upp í sjúkrabíl þegar blaðamaður náði í hann.

Einar Örn er þó meðvitaður um að saksóknari geti áfrýjað dómnum og ætlar því ekki að fagna of snemma eftir allt sem á undan er gengið.

Nánar er fjallað um forsendur hins breytta dóms hér.

Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness, kvað upp dóminn í dag.
Mál Einars Arnar hefur vakið mikla athygli undanfarin ár. Einar Örn og Finnur Snær Guðjónsson fengu sem fyrr segir sex ára dóm í maí 2014 eða tæpum þremur árum eftir að þeir voru handteknir. Haustið 2015, rúmu ári síðar, var málinu svo vísað aftur heim í hérað þar sem Ástríður Grímsdóttir, sem kvað upp dóminn í héraði, þótti vanhæf. Ástæðan var sú að hún þótti þegar hafa tekið afstöðu til málsins þegar hún úrskurðaði Einar og Finn í gæsluvarðhald eftir handtökuna sumarið 2011.

Dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness sagði í viðtali við Vísi í fyrra að enginn hefði kveikt á perunni varðandi þetta atriði á sínum tíma. Dómstjórinn, Þorgeir Ingi Njálsson, kvað einmitt um dóminn í dag fjóru og hálfu ári eftir handtökuna.

Þar sem dómurinn yfir Einari Erni er skilorðsbundinn þarf hann ekki að sitja inni nema hann brjóti af sér innan næstu þriggja ára. Hið sama gildir um Finn Snæ.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í dag líkt og fyrir tæpum tveimur árum.Vísir/Valli
Ánægður miðað við fyrri niðurstöðu

„Persónulega er ég auðvitað ekki ánægður með neitt miðað við hvernig þetta er búið að fara,“ segir Einar Örn aðspurður um viðbrögð hans við dómnum. „Þetta er búið að vera langt ferli sem hefur halmað manni lengi.“

Einar Örn var tæplega átján ára og í mikilli neyslu sumarið 2011 þegar hann var handtekinn.

„Það eru komin næstum fimm ár síðan. Persónulega finnst mér þetta út í hött,“ segir Einar Örn um þann tíma sem málsmeðferðin hefur tekið. „Sérstaklega þar sem ég var burðardýr í þessu máli og var svikinn.“

Vísar Einar Örn þar til þess að hann hafi fengið annan pakka af fíkniefnum en til stóð að hann myndi flytja. Hann taldi sig eiga að flytja eitt kíló af kókaíni en úr urðu 30 þúsund e-töflur.

„En miðað við stöðuna, hvernig þetta fór síðast, er ég ánægður,“ segir Einar Örn.

„Ég er eins sáttur og það gerist miðað við aðstæður.“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttar­lögmaður.
Hrósar dómnum

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Einars Arnar, fagnar dómnum í samtali við Vísi.

„Ég er gríðarlega ánægður fyrir hönd umbjóðanda míns. Það er gríðarleg breyting að horfa fram á það að fá sex ára óskilorðsbundinn dóm og fá í meðferð nýs héraðsdóms fjögurra ára skilorðsbundinn dóm,“ segir Vilhjálmur.

Hann minnir á að meðferðin hafi staðið í á fimmta ár sem sé algjörlega óviðunandi samkvæmt grunnreglum í sakamálaréttarfari, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.

Vilhjálmur hrósar fjölskipuðum héraðsdómi fyrir að hafa tekið tillit til þeirra sjónarmiða og tryggt þannig réttaröryggi sakborninga með góðum og vel rökstuddum dómi.

Einar Örn var stöðvaður í Leifsstöð með um þrjátíu þúsund e-töflur í farangri sínum. Hann segist hafa haldið að hann væri að smygla kókaíni.
Var á vondum stað í lífinu

Einar Örn var í ítarlegu viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í maí 2014 eftir að sex ára dómurinn féll. Dómurinn vakti athygli enda þungur og hafði málsmeðferðin tekið tæp þrjú ár.

„Ég er á mínum versta stað í lífinu á þessum tíma. Ég er 17 ára gamall og á kafi í neyslu, skulda öllum þeim glæpamönnum sem ég þekkti á þeim tíma pening. Ég var á ferðalagi í útlöndum þegar ég fékk þetta boð um að losna frá öllum skuldum (með því að gerast burðardýr). Ég sá enga aðra leið,“ sagði Einar Örn.

„Svona mál á náttúrulega að tækla strax. Maður á ekki að þurfa að bíða í þrjú ár eftir að dómur falli. Ég sat í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði og mér finnst ég vera búinn að vera á skilorði í þrjú ár.“

Fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 í maí 2014 má sjá að neðan.

Ráðlagt að fara í fóstureyðingu

Einar Örn hefur tekið sig saman í andlitinu undanfarin ár. Hann er edrú, á konu og barn en hann óttaðist að þurfa að missa af uppvaxtarárum barnsins.

Það varð hins vegar ekki og eignuðust Einar Örn og Guðbjörg Hrefna stúlkubarn í árslok 2014.

Þeim hafði raunar verið ráðlagt af nokkurri sannfæringu frá því að eignast barnið vegna alvarlegs litningagalla. Þau eignuðust hins vegar heilbrigt barn og ríkti mikil hamingja með það eins og þau lýstu í einlægu viðtali við Ísland í dag í maí 2015.

Óþekktur lungnasjúkdómur

Stúlkubarnið fæddist fyrir tímann og var á vökudeild fyrstu þrjá mánuðina. Þegar hún varð sjö mánaða greindist hún með óþekktan lungnasjúkdóm sem læknar stóðu ráðþrota frammi fyrir. Litla stúlkan og foreldrarnir hafa dvalið í lengri tíma á Barnaspítala hringsins en voru á leið vestur um haf þegar Vísir ræddi við Einar Örn í dag.

„Við erum að setjast upp í sjúkrabílinn og fara með hana í flutning,“ segir Einar Örn. „Við erum búin að vera hérna núna samfleytt í sex mánuði.“

Hann segir að nú eigi að fara í rannsóknir ytra og á von á að gripið verði til einhverra aðgerða.

„Það er verið að fara með hana á besta staðinn þar sem hún getur fengið bestu læknisaðstoðina sem hún þarf,“ segir Einar og minnir á að ýmis tæki og tól vanti fyrir heilbrigðisstarfsmenn hér heima.

Vísir hefur fjallað um söfnun til styrktar dóttur þeirra Einars Arnar og Guðbjargar Hrefnu en hún tilheyrir hópnum Marsmömmur sem var stofnaður í nóvember 2014 af konum sem áttu von á barni í mars 2015.


Tengdar fréttir

Brot á meginreglu um hraða málsmeðferð

Verjandi manns sem dæmdur var í sex ára fangelsi fyrir innflutning á 30.000 e-töflum segir ljóst að meginreglur um hraða málsmeðferð hafi verið brotnar í málinu. Tæp þrjú ár liðu frá því að brotið átti sér stað og þar til ákæra var gefin út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×