Af þeim 51 sem lést í sjálfsmorðsárás í brúðkaupi í Tyrklandi á laugardaginn voru minnst 29 undir átján ára aldri. Þá voru 22 undir fjórtán ára aldri. Sá sem sprengdi sig í loft upp er sagður hafa verið tólf til fjórtán ára.
Nærri því 70 manns særðust í árásinni.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur kennt Íslamska ríkinu um árásina. Hún var gerð á brúðkaup Kúrda í bænum Gaziantep, sem liggur nærri landamærum Sýrlands. Samkvæmt BBC hefur lengi verið vitað að ISIS hafi verið með viðveru í bænum.
Gerð sprengjunnar sem notuð var er sögð vera svipuð þeim sem hafi verið notaðar til fyrri árása gegn samkomum Kúrda í Tyrklandi.
Hernaðarbandalag Kúrda og Araba í Sýrlandi hefur sótt hart fram gegn Íslamska ríkinu þar í landi á síðustu mánuðum, með stuðningi Bandaríkjanna og annarra ríkja.
Sjá einnig: ISIS nota þroskaskert börn til sjálfsmorðsárása
Lögregluþjónar á sjálfsstjórnarsvæði Kúrda stöðvuðu í gær ungan dreng sem bar sprengjubelti um sig í borginni Kirkuk. Samkvæmt Sky News, þar sem sjá má myndir af atvikinu, höfðu tvær árásir verið gerðar fyrr um daginn þegar drengurinn var stöðvaður. Hann er sagður hafa verið mest þrettán ára gamall.
Mörg börn meðal hinna látnu í Tyrklandi

Tengdar fréttir

Tala látinna kominn yfir 50 í Tyrklandi
Yfir hundrað særðir eftir sprengjuárás í brúðkaupsveislu í bænum Gaziantep í gærkvöld. ISIS kennt um.

Forseti Tyrklands segir árásarmanninn vera 12-14 ára gamlan
Recep Erdogan segir árásarmanninn í sjálfsmorðsárás í gær vera 12-14 gamlan ungling. Yfir fimmtíu manns úrskurðaðir látnir og í kringum sjötíu særðir.