Lífið

Eins og ef vinsælasti staðurinn eignaðist barn

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Guðmundur og Unnar Helgi hafa ekki áhyggjur af því að skemmtistaðareksturinn muni hafa áhrif á vináttuna.
Guðmundur og Unnar Helgi hafa ekki áhyggjur af því að skemmtistaðareksturinn muni hafa áhrif á vináttuna. Vísir/Stefán
Unnar Helgi Daníelsson Beck og Guðmundur Hilmar Tómasson hafa verið bestu vinir frá því í fyrsta bekk og demba sér nú á bólakaf saman í rekstur á skemmtistað.

Þeir félagar taka nú við rekstri skemmtistaðarins Tivoli sem starfræktur er í sama húsnæði og skemmtistaðurinn Dolly var þegar hann var og hét.

Þeir félagar munu taka yfir reksturinn og ráðast í ýmsar breytingar en hafa þó ákveðið að halda nafni staðarins óbreyttu. „Þetta er geggjað nafn, alþjóðlegt og orðið tívolí vekur alltaf spennu og gleði,“ segir Guðmundur og bætir við að stefnan sé sett á að vekja staðinn til lífsins.

Líkt og áður sagði hafa Guðmundur og Unnar Helgi verið vinir um áralangt skeið og þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir fara út í rekstur á fyrirtæki saman þar sem þeir byrjuðu með ferðaþjónustufyrirtækið Reykjavík Rocks saman árið 2009. Hvorugur þeirra hefur setið auðum höndum síðan en Unnar Helgi á pítsustaðinn Ugly auk skemmtistaðarins Dúfnahóla 10 ásamt fleirum og Guðmundur hefur lagt stund á Creative Branding and Art Direction í Barcelona.

Staðurinn verður að einhverju leyti tvískiptur, á efri hæðinni verður skemmtistaður og á hinni neðri eins konar kokteilstofa. Með haustinu stendur til að hafa staðinn opinn sem kaffihús á daginn. Þeir Guðmundur og Unnar eru ófáanlegir til þess að miða staðinn við aðra skemmtistaði sem þegar eru í miðbænum og segja tónlistarstefnuna verða það besta úr öllum áttum. „Þetta verður eins og vinsælasti skemmtistaðurinn í Reykjavík hafi eignast barn.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×