Innlent

Mosfellsbær skuldar ríkinu 100 milljónir vegna byggingar FMos

Bjarki Ármannsson skrifar
Mosfellsbær þarf að greiða íslenska ríkinu rúmlega hundrað milljónir króna vegna byggingar Framhaldsskólans í Mosfellsbæ á árunum 2011 til 2014.
Mosfellsbær þarf að greiða íslenska ríkinu rúmlega hundrað milljónir króna vegna byggingar Framhaldsskólans í Mosfellsbæ á árunum 2011 til 2014. Vísir/Pjetur
Mosfellsbær þarf að greiða íslenska ríkinu rúmlega hundrað milljónir króna vegna byggingar Framhaldsskólans í Mosfellsbæ á árunum 2011 til 2014. Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að bærinn hafi ekki efnt að fullu greiðsluskyldu sína á lögbundnu fjárframlagi sínu til stofnkostnaðar skólans.

Ríkið og Mosfellsbær sömdu á sínum tíma um það að ríkið skyldi greiða sextíu prósent kostnaðarins við byggingu skólans en bærinn fjörutíu prósent. Bærinn taldi sig hafa staðið við sínar skuldbindingar að fullu en deilan snerist um það hvort bærinn ætti rétt á því að krefja ríkið um greiðslu gatnagerðargjalds, alls 101.784.632 krónur.

Gatnagerðargjald er sértækur skattur sem lagður er á í eitt skipti þegar lóðarhafi fær lóð úthlutað eða sveitarfélagið selur honum byggingarrétt á henni. Héraðsdómur segir í úrskurði sínum að bærinn hafi ekki átt kröfu á hendur ríkisins um greiðslu gjaldsins vegna úthlutunar lóðar undir skólann og er bænum gert að greiða ríkinu sem nemur gjaldinu, auk dráttarvaxta og milljónar króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×