Innlent

Kerry flaug yfir Ísland í norðurslóðaheimsókn

Kristján Már Unnarsson skrifar
John Kerry lentur í Kangarlussuaq, eða Syðri-Straumfirði, á Grænlandi, í fylgd utanríkisráðherra Danmerkur. Forsætis- og utanríkisráðherra Grænlands taka á móti Kerry.
John Kerry lentur í Kangarlussuaq, eða Syðri-Straumfirði, á Grænlandi, í fylgd utanríkisráðherra Danmerkur. Forsætis- og utanríkisráðherra Grænlands taka á móti Kerry. Mynd/Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, hefur undanfarna daga verið á ferð um norðurslóðir beggja vegna Íslands, heimsótt Grænland og Svalbarða, sem og höfuðborgir Noregs og Danmerkur, en nýtti ekki tækifærið til að koma við á Íslandi. Bandaríkjamenn fara um þessar mundir með formennsku í Norðurskautsráðinu. 

John Kerry hóf heimsóknina í Ósló þar sem hann ræddi við Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, og heilsaði upp á Harald Noregskonung. Hann flaug síðan til Svalbarða í fylgd Börge Brende, utanríkisráðherra Noregs. Þeir sigldu um Kongsfjorden skammt frá Nýja-Álasundi en þar er eitt nyrsta vísindamannasamfélag heims. Þar sá Kerry skriðjökul sem hopað hefur verulega undanfarin ár í óvenju miklum hlýindum en meðalhiti á Svalbarða hefur í einstaka mánuðum undanfarin misseri verið að mælast allt að átta gráðum yfir meðaltali. 

Á Svalbarða. Börge Brende með John Kerry.Mynd/Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.
Frá Svalbarða flaug Kerry til Kaupmannahafnar til að hitta danska ráðamenn og ræddi við Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. Ennfremur átti hann fund í Amalienborg með Margréti Danadrottningu og Friðriki krónprins.

Frá Kaupmannahöfn var flogið til Kangerlussuaq á Grænlandi í fylgd utanríkisráðherra Danmerkur, Kristians Jensen. Flugleiðin þar á milli liggur venjulega yfir norðanvert Ísland þannig að Kerry gæti hafa séð Akureyri og Vestfirði út um gluggann á leið sinni til Grænlands. Þar ræddi bandaríski utanríkisráðherrann við grænlenska ráðamenn; Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, og Vittus Qujaukitsoq utanríkisráðherra.

Grænlendingarnir nýttu meðal annars tækifærið til að ræða málefni Thule-herstöðvarinnar. Þeir hafa verið gramir Bandaríkjamönnum fyrir að veita bandarískum aðilum milljarða þjónustusamning í kringum herstöðina en fram til ársins 2013 var það í höndum danskra stjórnvalda að úthluta verkefninu.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna flaug svo í gær til Ilulissat við Diskó-flóa og sigldi þar um hinn fræga Ísfjörð, sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

John Kerry með Margréti Danadrottningu og Friðriki krónprins í Amalienborg í Kaupmannahöfn.Mynd/Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×