Erlent

Radiohead fordæmir árás á aðdáendur: „Vonandi mun þetta einn daginn tilheyra liðinni tíð“

Bjarki Ármannsson skrifar
Til átaka kom í borginni í gær milli lögreglu og mótmælenda, sem meðal annars fordæmdu árásina á plötubúðina.
Til átaka kom í borginni í gær milli lögreglu og mótmælenda, sem meðal annars fordæmdu árásina á plötubúðina. Vísir/EPA
Hljómsveitin Radiohead hefur fordæmt árás á aðdáendur þeirra í tyrknesku höfuðborginni Istanbúl á föstudag. Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá, réðust um tuttugu manns á starfsfólk og viðskiptavini plötubúðar sem var að spila nýjustu plötu sveitarinnar.

Talið er að árásarmennirnir hafi verið strangtrúaðir múslímar sem hafi ráðist á fólkið fyrir að drekka áfengi og hlusta á tónlist nú þegar ramadan, heilagasti tími múslíma stendur yfir.

Tyrkneskir fjölmiðlar segja árásarmennina alla hafa verið karlkyns og að þeir hafi ráðist á fólkið í plötubúðinni með prikum og flöskum. Ekki er staðfest hversu margir særðust.

Í tilkynningu frá Radiohead, sem hélt eftirminnilega tónleika hér á landi í fyrrakvöld, senda meðlimir sveitarinnar kveðjur til þeirra sem ráðist var á.

„Við vonum að einn daginn muni svona ofbeldisfullt umburðarleysi tilheyra liðinni tíð,“ segir í tilkynningunni. „Að svo stöddu, getum við ekki gert annað en að senda ástar- og stuðningskveðjur til aðdáenda okkar í Istanbúl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×