Viðskipti innlent

Þessi vél tekur vinnuna frá mörgum sem grafa skurði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þeir sem vinna við að moka lagnaskurði gætu þurft að huga að annarri vinnu. Ný vinnuvél gerir þá að mestu óþarfa því hún gerir allt í senn; grefur skurðinn, leggur lögnina oní og mokar svo yfir. 

Þeir hjá fyrirtækinu Línuborun kynntu hana sem ofurvélina en þeir tóku hana í notkun í dag við gatnamót Þingvallavegar í Mosfellsbæ. Öflugt hjól með sterkum tönnum fræsir niður skurð sem getur orðið allt að 170 sentímetra djúpur og 60 sentímetra breiður.

Hróar Björnsson, rekstrarstjóri Línuborunar, lýsti því í fréttum Stöðvar 2 hvernig vélin gæti fræst niður lagnir í gegnum hraun, klappir, erfiðan jarðveg sem og mold. Mikill tímasparnaður fylgdi vélinni.

Fyrsta verkið er að leggja kaldavatnslögn fyrir Mosfellsbæ.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Hér er verkefnið að leggja nýja tveggja kílómetra langa kaldavatnsæð ofan af Mosfellsheiði og inn í Mosfellsbæ svo íbúar þessa 9.500 manna bæjarfélags fái örugglega nóg af köldu vatni.

„Okkar vél er uppgefin að fara 250 til 500 metra á dag þannig að hún er að sýna gífurleg afköst. Hún leysir bara af hólmi má segja fjórar vélar,“ segir Hróar.

Vélin gerir allt í senn; fræsir skurðinn, leggur lögnina niður, dreifir sandi með, og áður en hún mokar yfir leggur hún niður gulan aðvörunarborða.

„Þannig að þú ert aldrei með opinn skurð í verkinu.“ 

Vélin er frönsk og kostar hátt í tvöhundruð milljónir króna. En fækkar hún þá einnig verkamönnum?

„Já, það má segja það. Við erum með til dæmis einn verkamann hérna. Hann styður sig bara við skófluna. Ég held að það séu bara nútímaþægindi,“ svarar Hróar Björnsson.

Jarðlagnavélin grefur skurðinn, leggur lögnina, setur sand með, og lokar svo skurðinum.Stöð 2/Sigurjón Ólason.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×