Tónlist

Jólatónleikar Björgvins haldnir í tíunda skipti

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Jólagestir Björgvins verða í Höllinni á laugardaginn. Mynd/MummiLú
Jólagestir Björgvins verða í Höllinni á laugardaginn. Mynd/MummiLú Mynd/MummiLú
Þetta byrjaði reyndar árið 2003 með fyrstu Jólagestum Björgvins á Nordica hótelinu og þar var ég með góða gesti eins og Siggu Beinteins, Eyjólf Kristjáns, Jóhönnu Vigdísi og Pál Rósinkranz og frábæra hljómsveit. Okkur langaði að gera þetta með svolitlum „bravúr“ í Las Vegas stílnum með stórum borðum, fallega skreyttum sal og fjórrétta „a la carte“ jólamatseðli. Þetta tókst mjög vel og var vel sótt í ein 10 skipti fyrir fullum sal. Það var upphafið og var allt byggt upp á Jólagestaplötunum mínum eins og nú,“ segir Björgvin Halldórsson, spurður út í upphaf Jólagesta Björgvins, en tónleikarnir verða haldnir í tíunda sinn á laugardaginn, 10. desember, í Höllinni.

Að vanda verður gestalistinn ekki af verri endanum, fjölmargir þjóðþekktir söngvarar stíga á svið og syngja inn jólin ásamt Stórsveit Jólagesta undir stjórn Þóris Baldurssonar, strengjasveit undir stjórn Gretu Salome, Barnakór Kársnesskóla undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur, Karlakórnum Þröstum undir stjórn Jóns Karls Einarssonar og Gospelkór Reykjavíkur undir stjórn Óskars Einarssonar. Tónleikarnir hafa notið mikilla vinsælda í gegn um árin.

„Ég hef verið svo heppinn að hafa fengið að vinna með fyrsta flokks fagfólki frá byrjun, svo á ég frábæra fjölskyldu sem hefur staðið eins og klettur við hliðina á mér, ásamt úrvals tónlistar- og tæknifólki sem hefur gert þessa tónleikaröð ógleymanlega,“ segir Björgvin og bætir við að ekki megi gleyma Ísleifi Þórhalls og hans fólki hjá Senu Live sem hefur haldið utan um tónleikana með stæl með þeim Gunnari Helgasyni leikstjóra og Birni G. Björnssyni sem hefur umsjón með handriti.

Flestallir þekkja jólalagið vinsæla Ég hlakka svo til, sem dóttir Björgvins, Svala, söng svo eftirminnilega um árið. Hún hefur verið gestur á tónleikunum þó nokkrum sinnum og fengið virkilega góð viðbrögð áhorfenda.

„Svala mín verður með á tónleikunum í ár, en hún hefur búið í Los Angeles í átta ár og það er alltaf gaman ef hún getur komið til landsins og tekið þátt. Það er gott að vinna með Svölu. Hún er mjög fagleg og kröfuhörð við sjálfa sig og það líkar mér. Ég má ekki ljóstra upp lögunum sem hún mun flytja en þau eru góð og að sjálfsögðu syngjum við saman dúett,“ segir Björgvin.

Hvað stendur upp úr á þessum tíu árum?





Að vanda verður gestalistinn ekki af verri endanum, en fjöldi söngvara mun stíga á svið í Höllinni á laugardaginn.Mynd/MummiLú
„Allar þær góðu og frábæru minningar frá þessu mikla ævintýri. Allt þetta góða fólk sem ég hef kynnst í gegnum tónleikana. Frábærir söngvarar og hljóðfæraleikarar sem tekið hafa þátt með okkur sem ég er mjög þakklátur fyrir. Það er þetta fólk sem ég þakka þessa velgengni í gegnum árin,“ segir hann þakklátur.

Val á jólastjörnunni hefur orðið æ umfangsmeira síðustu árin og er verkefnið orðið að vinsælum sjónvarpsþætti ár hvert. Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir, níu ára stúlka frá Grindavík, var valin Jólastjarnan 2016 og mun hún koma fram ásamt fjölda þekktra stórsöngvara næstu helgi.

„Mér finnst Jólastjörnuþættirnir frábærir, okkur langaði alltaf að láta Jólagestatónleikana höfða til breiðari hóps og það hefur tekist vel með þessum þáttum. Það er svo skemmtilegt að vinna með þessum frábæru krökkum sem tekið hafa þátt og margir hverjir haldið áfram og gengið vel sem er frábært,“ segir Björgvin.

Þetta mun verða í síðasta sinn sem Jólagestir Björgvins verða í Höllinni en talsverðar breytingar eru framundan, sem verður skemmtilegt að fylgjast með.

„Ég mun halda áfram að taka á móti jólagestum eins og áður, en sjálfsagt eiga þeir eftir að breytast þar sem við stefnum á Eldborg á næsta ári. Ég mun sakna Laugardalshallarinnar, en þar hefur verið frábært að vera í öll þessi ár. Harpan er allt öðruvísi hús og býður upp á aðra spennandi möguleika sem er frábært. Við munum auðvitað reyna að toppa okkur eins og alltaf sem er ögrandi og skemmtilegt. Við munum eflaust brydda upp á nýjungum sem eiga eftir að falla tónleikagestum vel í geð. Það er næsta verkefni sem ég hlakka mikið til að vinna að,“ segir Björgvin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×