Innlent

Bjarni sakar borgina um „óbilgirni“ en aðhefst ekki vegna sölu á landspildu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fjármálaráðherra segir að Reykjavíkurborg hafi sýnt mikla óbilgirni með því að hraða lokun hluta Reykjavíkurflugvallar og setja innanlandsflugið í uppnám. Hins vegar sér hann enga ástæðu til að aðhafast vegna athugasemda um að ríkið hafi ekki haft skýra lagaheimild til ráðstöfunar landspildu við suðurhluta neyðarbrautarinnar.

Hjartað í vatnsmýri eru hagsmunasamtök þeirra sem vilja sjá Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri og á engum öðrum stað. Fulltrúar þessara samtaka sætta sig mjög illa við að búið sé að fjarlægja hluta flugbrautar 0624 og loka henni fyrir flugumferð.

Þeir hafa nú komist að því að ríkisvaldið hafi verið í gruggugu vatni þegar það seldi borginni landspildu sunnan við flugbraut 0624 sem nefnd hefur verið „neyðarbraut“ í opinberri umræðu.

Lögfræðingar fjármálaráðuneytins telja hins vegar að það hafi verið skýr lagaheimild þegar landið var selt. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segist ekki efast um það mat. Samningurinn haldi gildi sínu enda hafi afsal verið gefið út og kaupverð greitt. Bjarni segir hins vegar að borgarstjórn hafi gengið fram með mjög gagnrýniverðum hætti vegna Vatnsmýrarinnar og sett innanlandsflug í landinu í uppnám.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að menn hafi dregið of víðtækar ályktanir af dómi Hæstaréttar um lokun neyðarbrautarinnar í fjölmiðlum.

Ljóst er að þjóðin muni áfram takast á um veru flugvallarins og þær íbúðir sem rísa nú á Hlíðarenda munu byggjast í skugga þessa ágreinings.

Nýjasta framvinda málsins hefur hins vegar engin áhrif á uppbyggingu á Hlíðarenda enda snýst hún um sölu lands við suðurhluta flugbrautar 06/24. 

Sjá umfjöllun Stöðvar 2 í myndskeiði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×