Viðskipti innlent

Snjallsímasjúk þjóð: 87 prósent Íslendinga eiga snjallsíma

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Allir námsmenn sem tóku afstöðu í könnun MMR áttu snjallsíma en bændur og sjómenn halda meiri tryggð við hefðbundnari farsíma.
Allir námsmenn sem tóku afstöðu í könnun MMR áttu snjallsíma en bændur og sjómenn halda meiri tryggð við hefðbundnari farsíma. vísir/epa
Niðurstöður farsímakönnunar MMR sýna að mikill meirihluti Íslendinga á snjallsíma eða alls 87 prósent þjóðarinnar. Þá eiga 96 prósent Íslendinga á aldrinum 18 til 49 ára snjallsíma samkvæmt könnuninni en hlutfall snjallsíma á farsímamarkaði hefur aukist um 10 prósent á síðastliðnum 16 mánuðum.

Miðað við alþjóðlega rannsókn um snjallsímaeign í heiminum sem gerð var í fyrra er hlutfall þeirra sem eiga snjallsíma hér á landi nokkuð hátt. Þannig var hlutfallið 60 prósent í Þýskalandi, 68 prósent í Bretlandi og 72 prósent í Bandaríkjunum.

Allir námsmenn sem tóku afstöðu í könnun MMR áttu snjallsíma en bændur og sjómenn halda meiri tryggð við hefðbundnari farsíma en 57 prósent þeirra sögðust eiga snjallsíma, að því er fram kemur í tilkynningu frá MMR.

„Sömuleiðis mátti sjá mun á snjallsímaeign eftir aldri. Þeir sem að voru 49 ára eða yngri voru mun líklegri til þess að eiga snallsíma en þeir sem að tilheyrðu eldri aldurshópum. Af þeim sem tilheyrðu aldurshópnum 18-49 ára og tóku afstöðu sögðust 96% eiga snjallsíma, borið saman við 74% þeirra sem voru á aldrinum 50-67 ára og 58% þeirra sem voru 68 ára og eldri,“ segir á vef MMR.

Úrtak könnunarinnar voru einstaklingar 18 ára og eldri sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Um 100 svörum safnað í hverri viku frá 1. febrúar 2015 til 31. maí 2016 og var heildarsvarfjöldi 7126. Svarfjöldi á nýjasta tímabilinu (mars til maí 2016) var 1204.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×