Menning

Heldur mynd­listar­sýningu í stiga­ganginum heima

Tinni Sveinsson skrifar
Sýningin hlaut nafnið Stairway to heaven og segir Aron málverkin unnin út frá zen-hugmyndafræðinni.
Sýningin hlaut nafnið Stairway to heaven og segir Aron málverkin unnin út frá zen-hugmyndafræðinni. Mynd/Lilja Jónsdóttir
„Mér finnst gaman að leika mér með rými sem eru ekki hefðbundin sýningarrými,“ segir listamaðurinn Aron Bergmann Magnússon en hann ætlar að halda myndlistarsýningu á stigaganginum sínum á Skólavörðustíg 22b á Menningarnótt.

Aron er ekki óvanur óhefðbundnum sýningarrýmum en hann hefur meðal annars breytt Sundhöll Keflavíkur í listasal. „Síðan breyttum við gamalli fiskvinnslu í sýningarrými sem varð síðan að galleríi,“ segir Aron en er þetta í fyrsta skipti sem hann heldur listasýningu á stigagangi. „Ég ákvað að nýta loksins staðsetninguna mína í eitthvað gott,“ segir listamaðurinn en hann hefur búið á Skólavörðustígnum í fjögur ár.

Sýningin hefur hlotið nafnið „Stairway to heaven“ og segir Aron málverkin vera unnin út frá zen-hugmyndafræðinni. Þá gefur listamaðurinn upp vissa hluti í verkinu en leyfir ímyndunarafli áhorfandans að leika sér. „Ég mála kannski nokkur aðalatriði en svo gerir ímyndunaraflið restina,“ segir listamaðurinn. „Ég er ekki að fylla upp í neitt.“

Aron hefur verið að teikna frá blautu barnsbeini en hann lærði síðar hjá listakonunni Sossu á unglingsárunum. Eftir að hann kláraði myndlist á framhaldsskólastigi á Akureyri lá leið hans til Flórens þar sem hann útskrifaðist úr listaháskólanum Lorenzo de' Medici árið 2003.

Aron hefur hinsvegar ekki setið auðum höndum síðan þá en í dag starfar hann sem leikmyndahönnuður og hugmyndasmiður. „Og vegna ofvirkninnar eyði ég flestum kvöldum heima að mála,“ segir listamaðurinn og hlær.

Sýningin hefst klukkan 16 á laugardag og mun standa til 20 í stigagangi Arons við Skólavörðustíg 22b.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.