Erlent

Uppreisnarmenn segjast hafa náð í gegnum varnir hersins í Aleppo

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Aleppo.
Frá Aleppo. Vísir/Getty
Uppreisnarmenn segjast hafa náð að opna leið inn í borgina Aleppo í Sýrlandi. Stjórnarherinn í Sýrlandi og bandamenn þeirra í Rússlandi lokuðu öllum leiðum að borginni í síðustu viku og hafa setið um hana síðan. Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC hefur það eftir heimildarmönnum að forsvarsmenn stjórnarhersins neiti því að uppreisnarmenn hafi náð að opna leið að fullu inn í borgina. Er því haldið fram að stjórnarherinn hafi náð að hrekja uppreisnarmennina frá bækistöðvum hersins.

Afar misvísandi fréttir eru af gangi mála og fer eftir því við hvern er talað. Á vef BBC er haft eftir heimildarmönnum sem standa nærri uppreisnarmönnum að þeir hafi náð til samherja sinna í Aleppo. Sömu heimildarmenn segja að uppreisnarmennirnir hafi þó ekki náð að tryggja þessa leið sem þeir opnuðu inn í borgina. BBC segir að innan raða uppreisnarmanna sé að finna hóp með tengsl við al kaída-samtökin.

Þegar stjórnarherinn náði að loka öllum leiðum að borginni í síðustu viku héldu um þrjú hundruð manns þar til. Voru þá þrjár leiðir opnaðar úr borginni svo íbúar gætu yfirgefið hana. Í síðustu viku vöruðu Sameinuðu þjóðirnar við ástandinu í borginni og var búist við því að matvæli myndu klárast þar eftir um tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×